„Nú er tímabært að deyja

Fórnarlambanna í Stokkhólmi minnst en fimm lésust í árásinni.
Fórnarlambanna í Stokkhólmi minnst en fimm lésust í árásinni. AFP

Úsbekinn Rakhmat Akilov var formlega ákærður í dag fyrir hryðjuverk í miðborg Stokkhólms í apríl í fyrra. Hann hafði undirbúið árásina mánuðum saman og daginn sem hann keyrði vörubíl inn í mannþröng þá hafði hann hlaðið niður áróðursmynd á símann sinn og sagði „nú er tímabært að deyja“. Auk þess fundust ýmiskonar áróðursefni frá Ríki íslams en Akilov sór vígasamtökunum hollustu sína í janúar í fyrra.

Akilov er ákærður fyrir hryðjuverk, tilraun til hryðjuverks og setja aðra í hættu. Samkvæmt ákærunni stal Akilov vörubílnum og ók síðan niður Drottningargötuna, fjölfarna verslunargötu í miðborg Stokkhólms, á miklum hraða. Hann gerði tilraun til þess að virkja heimatilbúna sprengju sem hann hafði búið til úr fimm gashylkjum sem voru með áföstum skrúfum, hnífsblaði og fleiri járnhlutum.

Í ákærunni, sem Hans Ihrman, saksóknari, gaf út, kemur fram að Akilov hafi ætlað sér að skapa ótta meðal Svía. Hann hafi ætlað sér að neyða ríkisstjórn og þing landsins til þess að hætta stuðningi við alþjóðlegar hernað gegn Ríki íslams.

Mánuðina fyrir árásina í apríl spjallaði Akilov ítrekað við fólk á spjallrásum um árás í nafni Ríkis íslams. Meðal annars fylgja með ákærunni myndir af Akilov þar sem hann sést taka myndir af Drottningargötu og Hötorget, torg þar skammt frá, og greinilega að leita að heppilegum stað fyrir slíka árás. Hann leitaði uppi klúbba samkynhneigðra í Stokkhólmi á leitarvélum á netinu, ferðum Waxholmsbolaget og gufubátnum Mariefred.

Hans Ihrman sagði á blaðamannafundi í morgun að markmið hans væri að tryggja að Akilov myndi aldrei framar ganga sem frjáls maður um götur Svíþjóðar. Fimm létust og fjölmargir særðust í árásinni. Ljóst sé af þeim gögnum sem saksóknaraembættið hafi safnað um Akilov að hann hefði öfgavæðst töluvert áður en hann lét til skarar skríða.

Gögn málsins eru gríðarlega viðamikil, yfir níu þúsund blaðsíður auk 1.700 viðtala.

Aftonbladet

SVT - hér er hægt að hlusta á blaðamannafundinn í morgun

Lögreglumenn að störfum í Stokkhólmi daginn eftir árásina.
Lögreglumenn að störfum í Stokkhólmi daginn eftir árásina. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert