Réðst á níðing dætra sinna

Larry Nassar í dómssal.
Larry Nassar í dómssal. AFP

Faðir stúlkna sem bandaríski læknirinn Larry Nassar misnotaði réðst á hann í réttarsalnum í Michigan í dag. Nassar var læknir fimleikakvenna og var í síðustu viku dæmdur í 40-175 ára fangelsi fyrir að brjóta kynferðislega gegn skjólstæðingum sínum. 160 fórnarlömb hans gáfu vitnisburð við meðferð málsins. Talið er þó að fórnarlömbin séu mun fleiri eða að minnsta kosti 265. Nassar hafði þá þegar verið dæmdur í 60 ára fangelsi fyrir vörslu barnakláms.

Faðirinn sem réðst á Nassar heitir Randall Margraves og þurfti þrjá réttarverði til að yfirbuga hann. Rétt áður en hann gekk að borðinu þar sem Nassar sat og réðst á hann hafði hann sagt: „Gefið mér fimm mínútur með þessum djöfli í búningsklefanum.“

Dómarinn sagði að á það yrði ekki fallist og í kjölfarið réðst hann á Nassar. Dætur hans, Madison og Lauren, höfðu mætt fyrir dóminn í dag til að gefa vitnisburð sinn. Læknirinn misnotaði þær báðar á sínum tíma. 

Er Margraves var handtekinn í réttarsalnum í dag, sagði hann: „Ég vil ná þessum tíkarsyni! Hvað ef þetta myndi koma fyrir ykkur?“

Frétt BBC um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert