Opnunarræður fluttar í máli Trumps

Donald Trump mætir í dómshúsið á Manhattan í dag.
Donald Trump mætir í dómshúsið á Manhattan í dag. AFP/Yuki Iwamura

Don­ald Trump, fyrr­ver­andi for­seti Banda­ríkj­anna og nú­ver­andi for­setafram­bjóðandi Re­públi­kana, var mættur í dómsal á Manhattan í New York í morgun þar sem opnunarræður í dómsmáli gegn honum voru fluttar.

Í málinu er Trump sakaður um að hafa falsað reikn­inga og önn­ur viðskipta­gögn í tengsl­um við mútu­greiðslur til klám­mynda­leik­kon­unn­ar Stor­my Daniels í skipt­um fyr­ir þögn henn­ar um sam­skipti þeirra árið 2006. Átti greiðslan sér stað árið 2016, þegar kosn­inga­bar­átta Trumps við Hillary Cl­int­on stóð sem hæst. 

Trump er fyrsti fyrr­ver­andi for­seti Banda­ríkj­anna sem þarf að mæta fyr­ir dóm, en málið er eitt af nokkr­um sem höfðuð hafa verið gegn hon­um eft­ir að hann lét af embætti for­seta.

Stuðningsmenn Trumps eru einnig mættir fyrir utan dómshúsið.
Stuðningsmenn Trumps eru einnig mættir fyrir utan dómshúsið. AFP/Spencer Platt

Val á kviðdómi fór fram í síðustu viku og tók styttri tíma en margir höfðu gert ráð fyrir. Eru fimm konur og sjö karlar í kviðdómnum, en passað hefur verið upp á að greina ekki frá nöfnum þeirra til að vernda þeirra eigið öryggi.

Meint brot í þessu máli teljast lítilvægari en meint brot hans í þremur öðrum málum sem höfðuð hafa verið gegn honum. Er það mál í Flórída um misferli með trúnaðarskjöl Hvíta hússins sem fundust á dvalarstað hans í ríkinu. Þá var hann ákærður af alríkinu í Washington D.C. og snýr það að ólögmætri tilraun hans til að hafa áhrif á niðurstöður forsetakosninganna árið 2020. Að lok­um var ákæra gef­in út í Georgíu í 13 liðum, en hún snýr einnig að ólög­mæt­um til­raun­um hans til að hafa áhrif á niður­stöður for­seta­kosn­ing­anna, en ein­skorðast við Georgíu­ríki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka