Samþykktu nýja löggjöf til að verja konur

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. AFP

Evrópuþingið samþykkti í dag umfangsmikið regluverk sem er ætlað að sporna gegn ofbeldi gegn konum.

Regluverkið er fyrst sinnar tegundar í Evrópuþinginu og miðar m.a. að því að koma í veg fyrir kynbundið ofbeldi og verja brotaþola, sérstaklega konur og þolendur heimilisofbeldis.

522 Evrópuþingmenn kusu með tillögunni, 27 kusu gegn henni og 72 sátu hjá. 

Fyrsta skrefið til að stöðva ofbeldi gegn konum

Nýju reglurnar munu taka gildi tuttugu dögum eftir birtingu þeirra í stjórnartíðindum ESB en aðildarríkin hafa þrjú ár til að innleiða ákvæðin. Verða ákvæðin endurskoðuð á fimm ára fresti. 

Skýrslugjafi kvenréttinda- og jafnréttisnefndar Evrópusambandsins, Frances Fitzgerld, segir regluverkið fyrsta skref Evrópu til að verða fyrsta heimsálfan til að stöðva ofbeldi gegn konum. 

„Það er ekkert jafnrétti ef við upprætum ekki ofbeldi gegn konum; við verðum að tryggja að þeir sem fremji slíka glæpi hljóti refsingu.“

Tilskipunin kallar á hertari löggjöf í kringum stafrænt ofbeldi, aukinn stuðning við brotaþola og aðgerðir til að koma í veg fyrir kynferðisbrot. Þá banna nýju reglurnar umskurð kvenna og þvingaðar hjónavígslur.

Aðildarríki skulu tryggja vitundarvakningu um samþykki

Mun aðildarríkjum Evrópusambandsins einnig bera aukin skylda til að tilkynna um og safna sönnunargögnum í ofbeldismálum og tryggja vitundarvakningu um að kynlíf án samþykkis sé refsiverður glæpur.

Kveður regluverkið einnig á um að öryggi og heilbrigði brotaþola skuli sett í forgang með áherslu á aðgengi að vernduðum gistiúrræðum og kvensjúkdóma-, og kynheilbrigðisaðstoð. 

Í regluverkinu má einnig finna ítarlegri útlistun á brotum sem framin eru á netinu svo sem birtingu einkaupplýsinga, brot á friðhelgi og að bera sig á netmyndum án samþykkis.

Eru ýmis brot sem bera með sér þyngri refsingu einnig útlistuð, svo sem glæpir gegn opinberum persónum, blaðamönnum eða aðilum sem standa vörð um mannréttindi. Eru þar einnig taldir upp glæpir sem beinast gegn einstaklingum á grundvelli kyns þeirra, kynhneigðar, húðlitar, trúarbragða, félagslegs uppruna, stjórnmálaskoðana og „heiðursglæpir“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka