Furða sig á ákvörðun í máli Weinsteins

Ashley Judd og Harvey Weinstein á samsettri mynd.
Ashley Judd og Harvey Weinstein á samsettri mynd. AFP

Hollywood-stjörnur, þar á meðal hópur leikkvenna sem sakaði Harvey Weinstein um kynferðisbrot, brugðust ókvæða við eftir að dómar yfir kvikmyndaframleiðandanum fyrrverandi í bandaríska ríkinu New York voru ógiltir.

Rosanna Arquette, Ashley Judd og Mira Sorvino voru á meðal þeirra sem tjáðu sig um málið eftir ákvörðun dómstólsins í gær.

Weinstein, sem einnig afplánar 16 ára dóm fyrir nauðgun í Kaliforníu, fer aftur fyrir rétt í New York vegna hinna málanna.

„Harvey var réttilega fundinn sekur. Það er slæmt að dómstóllinn hafi snúið dóminum við. Sem eftirlifandi þá er ég meira en lítið vonsvikin,” sagði leikkonan Rosanna Arquette við The Hollywood Reporter.

Rosanna Arquette.
Rosanna Arquette. AFP/Robyn Beck

„Þetta er ósanngjarnt gagnvart fórnarlömbunum. Við lifum í okkar sannleika. Við vitum hvað gerðist,” sagði leikkonan Asley Judd á Instagram.

„Hryllilegt!...Síðan hvenær leyfa dómstólar ekki sannanir sem sýna fram á mynstur slæmrar hegðunar sem hefur áður átt sér stað? Hann hefur framið fjölda brota og nauðgaði eða skaðaði yfir 200 konur! Það er viðbjóðslegt að dómskerfið hallist í átt að gerendum en ekki fórnarlömbum,” skrifaði leikkonan Mira Sorvino á X.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert