Birta myndskeið af skíðastökkinu

Ryoyu Kobayashi stökk 291 metra í Hlíðarfjalli á Ak­ur­eyri.
Ryoyu Kobayashi stökk 291 metra í Hlíðarfjalli á Ak­ur­eyri. mbl.is/Þorgeir

Orkudrykkjaframleiðandinn Red Bull hefur birt rúmlega 8 mínútna myndskeið á samfélagsmiðlum sem sýnir jap­anska skíðastökkvar­ann Ryoyu Kobayashi stökkva 291 metra í Hlíðarfjalli á Ak­ur­eyri.

Stökkið er yfir nú­gild­andi heims­meti, þó það gild­i ekki beint sem slíkt.

Hluti af auglýsingaherferð

Stökkpall­ur­inn var unn­inn af verk­fræðistof­unni Cowi á Ak­ur­eyri í sam­starfi við orkudrykkjaframleiðandann Red Bull. Stökkið var hluti af aug­lýs­inga­her­ferð Red Bull en slag­orð þeirra vís­ar til þess að orku­drykk­ur­inn gefi vængi.

Í myndskeiðinu má sjá undirbúninginn að gerð stökkpallsins sem og undirbúning skíðastökkvarans.

Mikil spenna er í myndskeiðinu sem nær hápunkti undir lokin þegar hann nær að stökkva 291 metra. Gildandi heimsmet í skíðastökki er 253,3 metrar.

Heimsmetið verður ekki staðfest

Heims­metið hef­ur ekki verið staðfest og verður ekki staðfest sam­kvæmt Alþjóðlega skíða-, og snjóbrettasambandinu (FIS) þar sem öll heims­met eru met­in út frá stöðlum og reglu­gerðum FIS til þess að tryggja að all­ir sem reyni að slá slíkt met geri það í sam­bæri­leg­um aðstæðum.

„Stökk Ryoyu Kobayashi á Íslandi fór ekki fram við keppn­isaðstæður í sam­ræmi við FIS reglu­gerðir. Það sýn­ir aft­ur á móti ótrú­lega frammistöðu íþrótta­manns við mjög sér­stak­ar aðstæður en ekki er hægt að líkja þeim við FIS-heims­meist­ara­keppn­ina í skíðaflugi, þar sem bæði upp­hafs­dag­setn­ing og verk­efnið í heild sinni er sér­sniðið að ein­um íþrótta­manni,“ seg­ir á vefsíðu FIS.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert