Frumvarp um Kjaradóm og kjaranefnd afgreitt sem lög

Frumvarp ríkisstjórnarinnar um Kjaradóm og kjaranefnd var afgreitt sem lög …
Frumvarp ríkisstjórnarinnar um Kjaradóm og kjaranefnd var afgreitt sem lög frá Alþingi í dag. mbl.is/Ásdís

Frumvarp um að afnema úrskurð Kjaradóms frá 19. desember sl. var afgreitt sem lög frá Alþingi nú laust fyrir klukkan 16. Annarri umræðu um frumvarpið lauk klukkan 15:45 og enginn tók til máls við þriðju umræðu. Frumvarpið var síðan samþykkt með 26 atkvæðum þingmanna stjórnarflokkanna en 17 þingmenn stjórnarandstöðunnar greiddu ekki atkvæði.

Við lok annarrar umræðu voru greidd atkvæði um breytingartillögu frá stjórnarandstöðunni og var hún felld með 26 atkvæðum gegn 18. Síðan voru einstakrar greinar frumvarpsins samþykktar með atkvæðum stjórnarliða en stjórnarandstæðingar sátu hjá.

Samkvæmt frumvarpinu fellur úrskurður Kjaradóms frá 19. desember sl. úr gildi frá og með 1. febrúar nk. og að á sama tíma hækka mánaðarlaun og einingar samkvæmt úrskurði Kjaradóms frá 9. júní 2005 hækka um 2,5%. Einnig er kveðið á um það að úrskurðir Kjaradóms og kjaranefndar skuli frá og með gildistöku laganna og fram til loka þess árs, taka mið af samningsbundnum hækkunum kjarasamninga á hinum almenna vinnumarkaði.

Undir Kjaradóm heyra laun forseta Íslands, þingmanna, ráðherra, hæstaréttardómara, héraðsdómara, biskups Íslands, ríkisendurskoðanda, ríkissáttasemjara, ríkissaksóknara og umboðsmanns barna. Samkvæmt úrskurði Kjaradóms frá því í desember hækkuðu laun forseta Íslands um 6,15% hinn 1. janúar sl. en laun annarra sem undir dóminn heyra að jafnaði um 8,16%.

Ferill málsins á Alþingi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert