Umræða hafin um kjaradómsfrumvarp á Alþingi

Þingmenn ræða nú stjórnarfrumvarp um Kjaradóm og kjaranefnd.
Þingmenn ræða nú stjórnarfrumvarp um Kjaradóm og kjaranefnd. mbl.is/Ásdís

Önnur umræða um frumvarp ríkisstjórnarinnar um Kjaradóm og kjaranefnd er hafin á Alþingi en umræður um störf þingsins og fundarstjórn forseta stóðu í um klukkustund eftir að þingfundur hófst. Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar leggur til að frumvarpið verði afgreitt óbreytt, en það felur í sér að úrskurður Kjaradóms frá 19. desember er felldur úr gildi frá og með 1. febrúar en mánaðarlaun þeirra sem úrskurðurinn nær til hækka um 2,5%.

Pétur H. Blöndal, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, gerði grein fyrir áliti meirihlutans. Sagði hann að upp úr stæði það sjónarmið, að sú hækkun launa æðstu stjórnenda ríkisins, sem úrskurður Kjaradóms var um, hefði komið á mjög viðkvæmum tíma og mikil launahækkun til æðstu stjórnenda ríkisins hafi vakið sterk viðbrögð og leitt til óróa á vinnumarkaði sem gat ógnað þeim efnahagslega stöðugleika sem að sé stefnt.

Minnihluti nefndarinnar vill að úrskurði Kjaradóms verði frestað á tímabilinu 1. febrúar til 1. júní og á meðan fjalli nefnd um nýjan lagagrundvöll Kjaradóms. Dómurinn kveði síðan upp úrskurð á grundvelli nýrra laga og sá úrskurður gildi frá 1. febrúar.

Lúðvík Bergvinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði þegar hann mælti fyrir áliti nefndarminnihlutans, að í máli Péturs hefði nánast ekkert komið fram af þeirri umræðu, sem fram fór í nefndinni meðan málið var þar til umræðu. Ekkert hafi verið greint frá því að allir lögfræðingar, sem komu fyrir nefndina, hafi goldið varhug við því að frumvarpið færi óbreytt gegnum þingið. Þá hafi Pétur heldur ekki getið þess, að dregið hafi verið fram á afar skýran hátt, að niðurstaða Kjaradóms endurspegli aðeins þá launaþróun sem verið hafi í landinu undanfarin misseri. Sagði Lúðvík, að þetta dragi fram að úrskurðurinn endurspegli þá kjaragliðnun sem orðið hefur milli þeirra sem meira hafa og þeirra sem minna hafa.

Ásta Möller, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði að það væri ekki rétt að allir lögfræðingar, sem komu fyrir nefndina, hefðu varað við þeirri leið sem ríkisstjórnin hefur valið.

Gert er ráð fyrir að þriðja og síðasta umræða um frumvarpið fari fram síðar í dag og það verði þannig að lögum í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert