Leitað með nætursjónauka

Flugvél danska hersins, sem var fyrst á staðinn úti fyrir …
Flugvél danska hersins, sem var fyrst á staðinn úti fyrir Reykjanesi í leitinni í dag, kom til Keflavíkur í kvöld til að taka eldsneyti. Hún fer aftur til leitar strax í birtingu í fyrramálið. Mynd/Víkurfréttir

Enn hefur ekkert fundist af Cessnaflugvélinni sem lenti í hafinu um 50 mílur vestur af Keflavík laust eftir klukkan 16 í dag. Leit er haldið áfram í kvöld með nætursjónauka frá skipum og þyrlum. Ekkert merki hefur borist frá neyðarsendi vélarinnar. Aðstæður til leitar eru erfiðar.

Flugmaður vélarinnar var einn um borð. Hann er bandarískur, og vélin einnig. Hann var á leið frá Grænlandi til Reykjavíkur.

Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni í kvöld segir:

„Í dag klukkan 15:50 barst Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar boð frá Flugstjórnarmiðstöð Reykjavíkur um að bandarísk Cessna 310 flugvél hefði misst afl af öðrum hreyfli, gæti ekki dælt eldsneyti á milli tanka vélarinnar og gerði ráð fyrir að missa afl af seinni hreyfli vélarinnar bráðlega. 

Flugstjórnarmiðstöð Reykjavíkur setti af stað viðbúnaðarstig í Keflavík og stjórnstöð Landhelgisgæslunnar ræsti út þyrlur Landhelgisgæslunnar TF-LIF og TF-GNA. 

Klukkan 16:10 hvarf Cessna vélin af ratsjá, um 50 sjómílur vestur af Keflavík.  Dönsk herflugvél sem var á svæðinu fór strax á staðinn og var leitinni á svæðinu stjórnað frá henni. 

TF-LIF kom á staðinn um klukkan 17:00.  Þá sást ekkert til Cessna vélarinnar og ekkert merki hefur borist frá neyðarsendi. 

Þrír togarar sem voru á svæðinu voru kallaðir til og fóru strax til leitar.  Cessna Skyhawk flugvél sem var á svæðinu fór einnig til leitar.  Allir björgunarbátar Slysavarnafélagsins Landsbjargar af svæðinu frá Reykjavík til Grindavíkur voru kallaðir út. 

Fokker flugvél Landhelgisgæslunnar var send á staðinn og leysti dönsku herflugvélina af með leitarstjórn á svæðinu.   Varðskip hélt einnig tafarlaust á svæðið.“

(C) MOTIV-MYND, Jón Svavarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert