Málin hellast yfir

Reuters

Nokkur dómsmál eru enn í gangi gegn olíufélögunum Keri, Skeljungi og Olís vegna verðsamráðs, ýmist öllum saman eða gegn einu félagi. Sem kunnugt er fóru málin af stað eftir að Samkeppniseftirlitið (nú Samkeppnisstofnun) komst að þeirri niðurstöðu í október 2004 að félögin hefðu gerst sek um verðsamráð á árunum 1993 til 2001.

Þrír dómar hafa fallið í Hæstarétti, þar sem félögin voru dæmd til greiðslu skaðabóta; til Reykjavíkurborgar, Strætó bs. og Sigurðar Hreinssonar, vörubílstjóra á Húsavík. Bótafjárhæðir voru misháar eða 73 milljónir til Reykjavíkurborgar og 15 þúsund krónur til Sigurðar.

Fordæmin eru því komin og að sögn Steinars Þórs Guðgeirssonar lögmanns, sem flutti mál Sigurðar bílstjóra, er verið að vinna úr málum um 200 einstaklinga sem sent hafa inn gögn. Verða þau send til héraðsdóms á næstu vikum og mánuðum. Segir Steinar að enn séu að berast gögn frá fólki sem vill fara í mál gegn olíufélögunum, síðast í gær.

Ríkissjóður að hefja mál

Búið er að taka fyrir mál Rio Tinto Alcan á Íslandi gegn félögunum þremur fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Telur álverið að það hafi orðið fyrir tjóni upp á 250 milljónir króna á árunum 1993 til 2001. Hjá sama dómstóli eru einnig í gangi mál sem Vestmannaeyjabær og útgerð Dala-Rafns í Eyjum hafa höfðað. Krefst bærinn 30 milljóna króna og útgerðin ríflega átta milljóna frá félögunum. Þá er íslenska ríkið með í undirbúningi mál vegna útboða fyrir ríkisstofnanir eins og Landhelgisgæsluna, Vegagerðina og dómsmálaráðuneytið.

Til viðbótar má nefna eitt mál sem er í gangi milli Olís og rækjuverksmiðjunnar Dögunar á Sauðárkróki. Olís er með viðskiptakröfu á hendur fyrirtækinu, sem á móti krefst sýknu með vísan til tjóns sem félagið telur sig hafa orðið fyrir vegna verðsamráðs olíufélaganna. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins er þetta mál í fresti meðan beðið er matsgerðar.

Síðan hafa olíufélögin höfðað mál gegn ríkinu og Samkeppnisstofnun þar sem þau krefjast þess að stjórnvaldssektir vegna samráðs verði dæmdar ólögmætar, en alls námu þær um 1.500 milljónum króna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert