Súðavíkurhlíð lokað til bráðabirgða

Veður fer hríðversnandi á Vestfjörðum núna og er lögreglan að búa sig undir kvöldið og nóttina með auknum mannskap. Viðbúnaðarstig er í gangi og hefur Vegagerðin þegar lokað Súðavíkurhlíð til bráðabirgða.

Lögreglan segir að Vegagerðin hafi lokað Súðavíkurhlíð á meðan aðstæður eru metnar og mun það koma í ljós á næsta hálftímanum hvort gripið verður til varanlegri lokunar þar og um Óshlíð sömuleiðis. Mjög mikill sjógangur og brim er á Vestfjörðum og gengur grjót á land á Ísafirði og Óshlíð.

Varðskipið Týr er að leggja af stað frá Reykjavík til að vera til taks á Vestfjörðum samkvæmt upplýsingum Landhelgisgæslunnar.

Almannavarnanefnd hefur ekki komið saman á Vestfjörðum en er upplýst um stöðu mála hjá Veðurstofunni. Ekkert hefur komið til tals að rýma hús vegna snjóflóðahættu, en aðgerðir og viðbúnaður snýr að vegum og öryggi í umferð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert