Þung ábyrgð að bera

Ármann Reynisson  segist feginn í dag að hafa snúið baki við viðskiptalífinu og breytt lífi sínu. Hann segir hætt við því að hann hefði annars lent í því að eiga þátt í efnahagshruninu núna.

Fyrir 18 árum fékk Ármann tveggja ára dóm fyrir auðgunarbrot og fjársvik. Dómurinn féll í kjölfar Ávöxtunarmálsins svokallaða þar sem stór hópur fólks tapaði öllu sínu sparifé.  Ármann segir hætt við því að hann hefði sogast inn í þennan heim banka og viðskiptalífsins, fílabeinsturn sem á endanum hefði hrunið. Hann segir viðskiptin hröð og ásóknina í hagnað og gróða svo mikla að menn hreinlega gleymi sér.

Hann segist vorkenna þeim sem beri ábyrgðina núna. Hann viti að þeim og fjölskyldum þeirra líði illa núna. Það sé þung og mikil ábyrgð að rísa undir að hafa komið heilli þjóð kaldan klaka.

Ármann segir að taka ætti jafn hart á málum þeirra sem beri ábyrgð í þessu efnahagshruni og gert var gagnvart honum persónulega  í Ávöxtunarmálinu. Hann hafi misst allar sínar eigur og staðið eftir á sviðinni jörð. Þá hafi hann verið hundeldur í fimm ár, dreginn í gegnum réttarkerfið og afplánað að því loknu  eins árs fangelsisdóm á Kvíabryggju. Ekki nóg með það heldur hafi honum verið haldið þremur vikum lengur til að gera honum lífið eins djöfullegt og hægt var.

Ármann sneri sér að öðru eftir að þessu ævintýri lauk og hefur undanfarin tíu ár skrifað svokallaðar vinjettur. Nú síðast segist hann hafa fengið kveðjur frá Margréti Danadrottningu, Jóhannesi Eidesgaard lögmanni Færeyja og Jónatan Mozfeldt í Grænlandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert