Eltir eldgos um allan heim

Martin Rietze á Fimmvörðuhálsi
Martin Rietze á Fimmvörðuhálsi mbl.is/Rúnar Pálmason

Martin Rietze, þýskur eldfjallaljósmyndari, var kominn að eldstöðinni á Fimmvörðuhálsi eldsnemma í gær. Hann lagði af stað fótgangandi frá Skógum um klukkan tvö og var kominn á hálsinn í ljósaskiptunum. Rietze brást hratt við eftir að hann frétti af eldgosinu á Fimmvörðuhálsi, pantaði sér far og var kominn til landsins á miðvikudag.

Rietze hefur tekið ljósmyndir af mörgum tilkomumestu eldgosum undanfarinna ára. Í samtali við Morgunblaðið sagði hann að eldgosið á Fimmvörðuhálsi væri á margan hátt fallegt og óvenjulegt.

Áður en Rietze kom hingað var hann á Montserrat í Karabíska hafinu þar sem eldgos hófst í lok janúar. Hann hefur tekið myndir hér áður, sjá www.mrietze.com.

Heimurinn í hættu

Sjónvarpsstöðvar úti í heimi hafa undanfarna daga sýnt hrikalegar myndir frá gosstöðvunum á Fimmvörðuhálsi. Fox News í Bandaríkjunum benti í vikunni á að öll heimsbyggðin gæti verið í stórhættu ef umbrotin í Eyjafjallajökli yrðu til að hrinda af stað Kötlugosi. Það yrði margfalt verra og gæti valdið geysilegu flóði á Íslandi. Eitraðar gufur og aska sem bærist upp í háloftin myndu gætu umturnað loftslagi heimsins.

Rætt var John Rundle, jarðskjálftafræðing og jarðfræðing í Kaliforníu, sem tók undir áhyggjur andstuttrar fréttakonunnar af málinu. Rundle minnti á að tvö geysimikil gos í Indónesíu á 19. öld hefðu kæft sumarið næsta ár um mestallan heim. Minnst var á Skaftáreldana 1783, sem einnig ollu uppskerubresti og kólnandi veðri.

En Rundle endaði samt á að segja fréttakonunni að anda rólega, hún væri ekki í lífshættu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert