Fréttaskýring: Hvergi sást í stein milli Fljótshlíðar og Eyjafjalla

Öskufall frá eldgosinu í Eyjafjallajökli
Öskufall frá eldgosinu í Eyjafjallajökli

„Vatnsmagn frá eldstöðinni í toppi Eyjafjallajökuls er mikið og gosið er miklu stærra en gosið á Fimmvörðuhálsi,“ sagði í tilkynningu frá Almannavörnum í gærmorgun. Enn og aftur höfðu Íslendingar vaknað upp við eldgos og erfitt er að spá um hvenær hrinunni sem nú stendur yfir í Eyjafjallajökli lýkur.

Eldgos hófst á Fimmvörðuhálsi norðanverðum, skammt vestan gönguleiðarinnar, fyrir tæpum mánuði, að líkindum laust fyrir miðnætti laugardaginn 20. mars síðastliðinn. Víðáttumikið svæði var rýmt um leið og eldgosið hófst og þurftu tæplega 500 manns að yfirgefa heimili sín. Mikill viðbúnaður var þegar settur í gang og um fjögur þúsund flugfarþegar töfðust þar sem flugumferð var bönnuð um tíma.

Gosið á Fimmvörðuhálsi laðaði að sér fjölda ferðamanna á alls kyns farartækjum og ferðaþjónusta blómstraði. Gosinu hefur að líkindum lokið í lok síðustu viku.

Eyjafjallajökull hefur ekki verið mikilvirk eldstöð síðan ísöld lauk. Þekkt eru tvö gos á síðustu öldum 1612 og 1821-23, en hvorugt var stórt. Athygli vekur að Kötlugos hófst í júní 1823, 18 mánuðum eftir gosbyrjun í Eyjafjallajökli. Á árunum 1612-1613 gaus líklega í báðum eldstöðvunum en ekki er fullljóst hvort gosið hófst fyrr eða hve langt leið á milli þeirra. Hvort og hvernig þessi tvö kerfi tala saman á eftir að koma í ljós.

Árið 1994 varð vart við kvikuinnskot undir Eyjafjallajökli, aftur árið 1999 og 2009. Slíkt kvikuinnskot hófst síðan aftur upp úr áramótum með jarðhræringum og þenslu jarðskorpunnar.

Leiftranir og eldglæringar

Töluverðar heimildir eru til um gosið í Eyjafjallajökli 1821-23 en því fylgdi m.a. allmikið jökulhlaup sem fyllti þáverandi farvegi Markarfljóts. Heimildarmenn orðuðu það þannig að hvergi hefði sést í stein á milli Fljótshlíðar og Eyjafjalla.

Í handritadeild Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns er varðveitt lýsing á gosinu 1821 í drögum að jarðeldasögu Íslands sem Jónas Hallgrímsson skáld og náttúrufræðingur tók saman á árunum 1840-1845. Jónas studdist við ýmsa annála við þessa samantekt.

„Þetta gos hófst svo: í rökkri og um vökuna miðvikudaginn 19. des. m. 1821, sáust oft leiftranir í heiðskíru veðri og daginn eftir um miðmunda sást hæst á Eyjafjallajökli lítill hvítleitur skýjabólstur og lagði á svipstundu hátt upp á loft og varð að þykkum reykjarmökk er sortnaði því meir sem frá leið...

Um sólsetur hvarf reykurinn, en skömmu seinna gekk enn meiri mökkur upp af jöklinum og voru ofarlega í honum leiftranir og eldglæringar, svo menn gengu úr skugga um að þetta var verulegt eldgos. Frá 21. til 27. gekk mökkurinn ákaft upp með landnorðanveðri og lagði fram og vestur af fjallinu; dökknaði þar jökullinn fyrir af öskufallinu, en mökkurinn óx æ meir og dreifðist út um veðurloftið, varð þá mikið öskufall undir Ytri-Eyjafjöllum og í Austur-Landeyjum. Einstaka sinnum brá fyrir eldi á jörðunum neðan til við mökkinn, og fyrstu dagana uxu nokkuð vötn og ár og vestur með Eyjafjallajökli heyrðust óttalegir dynkir í honum eins og hann mundi þá og þegar springa fram...“

Hættumat og áhættugreining

*Almannavarnir ríkisins létu skömmu eftir aldamótin 2000 vinna hættumat og áhættugreiningu vegna gosa og jökulhlaupa í Mýrdalsjökli og Eyjafjallajökli og ritstýrðu Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, og Ágúst Gunnar Gylfason hjá almannavarnadeild Ríkislögreglustjórans verkinu sem kom út 2005. *Sagt er í skýrslunni að stór jökulhlaup hafi á síðustu árþúsundum farið niður Markarfljót á 500-800 ára fresti að jafnaði, orsök hlaupanna hafi verið gos í vesturhluta Kötluöskjunnar. „Gos í tindi Eyjafjallajökuls verða á nokkur hundruð ára fresti en þau eru yfirleitt mun minni en Kötlugos,“ segir í skýrslunni. Leggja höfundar hættumatsins því áherslu á að vöktun sé ávallt í góðu horfi. *Eyjafjallajökull er 1.666 metra hár og dregur nafn sitt af Vestmannaeyjum sem eru skammt undan.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka