Skólahald í skugga eldgoss

Skólastarf í Hvolsskóla hefur gengið ótrúlega vel þrátt fyrir nálægðina við spúandi eldfjöll, vatnsflóð og þrúgandi öskuregn og sorta, að sögn Sigurlínar Sveinbjarnardóttur skólastjóra. Stórir hlutar starfssvæðis skólans hafa þrisvar verið rýmdir, tvisvar um miðjar nætur og einu sinni um kvöld.

Sigurlín skólastjóri sagði að skólahald í Hvolsskóla hafi verið haft með venjubundnum hætti fyrir utan einn dag. Þá varð kennslufall vegna rýmingar. Rauði krossinn yfirtók skólahúsið og notaði sem fjöldahjálparstöð. Skólinn fylltist þá af fólki vegna rýmingarinnar. 

„Annars hefur verið venjulegur skóli,“ sagði Sigurlín. „Við leggjum áherslu á að dagarnir séu venjulegir. Undanfarna daga hefur vantað 16-20 börn sem hafa ekki komist í skólann. Þau búa austan Markarfljóts og vegurinn var í sundur,“ sagði Sigurlín.

Starfsmaður Hvolsskóla hringdi í gær til að kanna hvar 16 börn sem ekki komu þá til skóla væru stödd. Í ljós kom að þrjár fjölskyldur höfðu sent börn til Reykjavíkur, önnur voru stödd hjá ættingjum og vinum á svæðinu. Flest munu snúa aftur í skólann.

Nemendum boðin áfallahjálp

Hvolsskóli hefur boðið upp á áfallahjálp. Sálfræðingar frá Rauða krossinum og Skólaskrifstofu Suðurlands hafa veitt þá þjónustu. Sigurlín sagði að áfallahjálpin sé rétt að byrja. 

„Við reynum bæði að upplýsa börnin og segja þeim sem mest frá þessi. En einnig að vera góð við þau og halda utan um þau,“ sagði Sigurlín.

Á meðfylgjandi mynd stendur Sigurlín við myndir sem nemendur Hvolsskóla gerðu af eldgosinu á Fimmvörðuhálsi. Hún segir gott fyrir börnin að tjá sig í teikningum, hvernig þau sjái eldgos fyrir sér. Hún segir börnin sýna viðbrögð vegna eldgossins í Eyjafjallajökli.

„Það hefur breyst í þessu nýja eldgosi úr toppgígnum [í Eyjafjallajökli]. Þetta öskufall er svo skelfilegt hjá þeim sem upplifa það. Börnin eru hrædd um dýrin sín, hestana og hafa líka áhyggjur af pabba og mömmu sem streða við að smala saman skepnum. Sérstaklega yngstu börnin eru spennt og hrædd. Þótt þau séu í skólanum og allt sé venjulegt þar.“

Sigurlín sagði að elstu nemendurnir af öskusvæðinu hafi tekið þátt í að aðstoða við að þétta bæina, smala skepnum og bregðast á annan hátt við öskuregninu.

Áfram verður boðið upp á áfallahjálp í Hvolsskóla. „Við erum enn í óvissu. Þegar mesta hættan verður liðin hjá geta komið fram viðbrögð. Börnin vilja ef til vill ekki tala um þetta nú. Það kemur kannski seinna. Sem Íslendingur verður maður að læra að búa við óvissu, en við búumst við að það taki langan tíma að vinna úr þessu,“ sagði Sigurlín.

Nemendur í grunnskólanum Hvolsskóla eru rúmlega 230 talsins, 6-16 ára gamlir. Þeir koma úr Rangárþingi eystra, það er frá Eystri-Rangá að Jökulsá á Sólheimasandi. Nemendur koma því úr gamla Hvolhreppi, Fljótshlíð, Landeyjum og undan Eyjafjöllum. Þeim er ekið til skóla með skólabílum.

Heimasíða Hvolsskóla

Sigurlín Sveinbjarnardóttir, skólastjóri Hvolsskóla, við myndir sem nemendur gerðu af …
Sigurlín Sveinbjarnardóttir, skólastjóri Hvolsskóla, við myndir sem nemendur gerðu af gosinu á Fimmvörðuhálsi. Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert