Fréttaskýring: Eldgosið í Eyjafjallajökli „var verulegt gos“

Eyjafjallajökull.
Eyjafjallajökull. mbl.is/Árni Sæberg

„Við fáum það út að gjóska sem féll hér á landi sé um 140 milljónir rúmmetra. Í Gígjökulslóninu eru allt að 25 milljónir rúmmetra, mestmegnis gjóska. Hraunið sem rann er nálægt 25 milljónum rúmmetra. Það er álíka mikið og hraunið sem kom upp í eldgosinu á Fimmvörðuhálsi,“ sagði Magnús Tumi Guðmundsson prófessor um magn fastra gosefna sem komu upp í gosinu í Eyjafjallajökli.

Hópur vísindamanna við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, undir forystu þeirra Magnúsar Tuma, Guðrúnar Larsen jarðfræðings og Ármanns Höskuldssonar eldfjallafræðings, hefur unnið að því undanfarna tvo mánuði að mæla magn gosefna sem komu upp frá því að eldgosið hófst 14. apríl sl. Hópurinn hefur unnið að verkefninu í samvinnu við Þorvald Þórðarson prófessor við Edinborgarháskóla. Um miðjan júlí fóru 10-12 vísindamenn upp á Eyjafjallajökul til mælinga og gagnasöfnunar. Magnús Tumi sagði að niðurstöðurnar væru enn bráðabirgðatölur.

„Það er ljóst að verulegt gjóskumagn féll utan Íslands, erlendis og í hafið, ef til vill frá fjórðungi og allt að einum þriðja hluta gjóskunnar. Það er enn mjög óljóst hve mikið það var. Við höfum ekki getað mælt það og höfum ekki nákvæma tölu um magnið. Heildartala gjósku er því verulega hærri en 140 milljónir rúmmetra,“ sagði Magnús Tumi. Hann batt vonir við að hægt yrði að meta þetta síðar í samvinnu við erlenda kollega. Til þess verður að afla upplýsinga um hve mikil aska féll t.d. í Færeyjum, Skotlandi og víðar.

Vatnsgufa uppistaða gassins

Heildarmassi, eða þyngd, gosefna er áætlaður vera allt að 300 – 400 milljónir tonna. Magnús Tumi sagði að fyrrgreindur rannsóknarhópur hefði ekki unnið sérstaklega að mælingum á gasi sem losnaði. Það væri þó aðeins lítill hluti massa gosefnanna, líkt og í öðrum eldgosum. Heildarmassi gassins sem losnaði í eldgosinu er talinn vera innan við tíu milljónir tonna. Þar af er vatnsgufa um 80%. Gastegundir með flúor og brennisteini hafa verið áætlaðar af stærðargráðunni 100 – 300 þúsund tonn, en engar nákvæmar tölur liggja fyrir um þær. Magnús sagði áætlað að magn gróðurhúsagassins CO2 hefði líklega ekki verið meira en ein milljón tonna.

Talið er að tæplega 100 milljónir rúmmetra af ís hafi bráðnað í gosinu. Það er svipað og í síðasta Grímsvatnagosi en aðeins lítið brot af því sem bráðnaði í Gjálp þar sem um fjórir rúmkílómetrar af ís bráðnuðu.

„Þetta var verulegt gos,“ sagði Magnús Tumi um Eyjafjallajökulsgosið. Hann sagði að t.d. bæði Gjálpargosið 1996 og Surtseyjargosið hefðu verið stærri en eldgosið í Eyjafjallajökli. Yfirleitt eru eldgos ekki kölluð stórgos fyrr en magn gosefna verður meira en einn rúmkílómetri. Fá gos á síðustu 100 árum hafa náð því, þó ef til vill Surtsey og Katla.

Eyjafjallajökull

190.000.000

rúmmetrar gjósku og hrauns

300 - 400

milljónir tonna af gosefnum

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert