Ólafur Ragnar bað Björgólf að koma heim

Björgólfur Thor Björgólfsson kemur á fund í Ráðherrabústaðnum laugardaginn 4. …
Björgólfur Thor Björgólfsson kemur á fund í Ráðherrabústaðnum laugardaginn 4. október 2008. mbl.is/Brynjar Gauti

Fram kemur í skýrslu, sem Björn Jón Bragason, sagnfræðingur, gerði á síðasta ári um aðdraganda hruns Landsbankans haustið 2008, að Björgólfur Thor Björgólfsson hafi í byrjun október það ár fengið símtöl frá fjölmörgum áhrifamönnum hér heima, sem hvöttu hann til að koma aftur út til Íslands, þar sem ástandið væri erfitt.

Meðal annars hefði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, haft samband og brýnt fyrir Björgólfi að halda heim – það væri „mjög gott“ að hann kæmi.

Skýrslan er birt á vef sem Björgólfur Thor Björgólfsson, opnaði nú eftir hádegið og kemur fram að hún hafi verið unnin að frumkvæði Björgólfs Guðmundssonar, fyrrverandi formanni bankaráðs Landsbankans. Þar kemur m.a. fram, að Halldór J. Kristjánsson, þáverandi bankastjóri Landsbankans, og Sigurður Einarsson, þáverandi stjórnarformaður Kaupþings, lögðu sömuleiðis hart að Björgólfi Thor að koma heim. Sigurður hafi látið svo um mælt við Björgólf Thor, að það þyrfti að stappa stálinu í Landsbankamenn, gríðarmiklu skipti að allir ynnu að því hörðum höndum um helgina að finna lausnir á vandanum.

Þá reyndi Össur Skarphéðinsson, þáverandi iðnaðarráðherra, að ná tali af honum sama dag. „Björgólfur Thor gerði sér grein fyrir þeirri alvarlegu stöðu sem upp var komin og hélt til Íslands að morgni laugardagsins 4. október," segir í skýrslunni.

Mánudaginn 6. október voru neyðarlögin sett og Fjármálaeftirlitið tók yfir stjórn Landsbankans sama kvöld. 

Vefur Björgólfs Thors

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert