Rannsökuðu Eyjafjallajökul

Mökkurinn yfir Eyjafjallajökli á öðrum degi gossins í vor.
Mökkurinn yfir Eyjafjallajökli á öðrum degi gossins í vor. Helgi Bjarnason

Vísindatímaritið Nature birtir á morgun, fimmtudag, grein eftir íslenska og erlenda vísindamenn um Eyjafjallajökul og jarðskorpuhreyfingar tengdar þeim. Þar kemur m.a. fram að samspil kvikuinnskots undir austurhluta fjallsins við bergkviku undir fjallinu miðju virðist hafa hleypt sprengigosinu í vor af stað. 

Eldgosið í Eyjafjallajökli vakti alþjóðlega athygli enda stöðvaðist flugumferð að mestu í Evrópu í um vikutíma í apríl vegna öskuskýs frá jöklinum. 

Höfundar greinarinnar eru vísindamenn við Jarðvísindastofnun Háskólans, Veðurstofu Íslands sem og erlendir samstarfsaðilar. Rannsóknin skiptir miklu máli varðandi mat á hegðun eldfjalla sem gjósa sjaldan, að sögn Freysteins Sigmundssonar jarðeðlisfræðings.

Lýst er í greininni hvernig mælingar á jarðskorpuhreyfingum gögnuðust við að meta kvikuhreyfingar neðanjarðar af því að þrýstingsbreytingar í rótum eldstöðva valda mælanlegum tilfærslum á yfirborðinu. „Hæg, oft samfelld þensla og landris eru algengir undanfarar eldgosa í mjög virkum eldstöðvum með háa gostíðni. Slíkum eldgosum fylgir jafnan hratt sig við það að kvikuþrýstingur fellur í kvikuhólfi undir eldstöðinni," segir m.a. í útdrætti úr greininni. „Minna er vitað um eðli landbreytinga og munstur kvikuhreyfinga í eldstöðvum þar sem lengri tími líður á milli gosa líkt og í Eyjafjallajökli."

 Gerðar hafi verið margvíslegar mælingar á jarðskorpuhreyfngum á svæðinu í meira en tvo áratugi, beitt hafi verið GPS-mælingum á neti mælipunkta við fjallið. Einnig hafi verið gerðar bylgjuvíxlmælingar úr Envisat- og TerraSAR-X-gervitunglum. Vöktun hafi verið aukin siðustu mánuðina fyrir gos.  

„Frá janúar og fram til 20. mars þegar eldgos hófst á Fimmvörðuhálsi myndaðist um 50 milljón rúmmetra kvikuinnskot undir austurhluta Eyjafjallajökuls. Færslur á næstu GPS-stöðvum síðustu vikurnar fyrir gos námu meira en fimm millimetrum á dag. Vart marktækar færslur mældust hins vegar á meðan á gosinu stóð og virðist kvikan hafa komið upp af miklu dýpi. Þegar gosið í toppgíg Eyjafjallajökuls hófst 14. apríl seig fjallið saman vegna þrýstifalls í kvikugeymi undir hájöklinum, vestan við kvikuinnskotin sem mynduðust fyrir gosin en á svipuðu dýpi (4-5 km).

Samspil kvikuinnskotsins undir austurhluta fjallsins við bergkviku sem fyrir var undir miðju fjallinu virðist hafa hleypt sprengigosinu af stað.  Hegðun Eyjafjallajökuls er sennilega afleiðing þess að eldfjallið er utan rekbeltanna með kaldari innviði og takmarkað magn kviku á grunnu dýpi."  

Niðurstöður rannsóknanna hafa mikla þýðingu fyrir önnur eldfjöll á jörðinni sem liggja lengi í dvala, að sögn Freysteins Sigmundssonar. Undanfari eldsumbrota í þeim kann að vera svipaður og í Eyjafjallajökli. Auðvelt kann þá að vera að meta hvenær ný kvika fer að streyma inn í eldfjöll en erfiðara að meta hvort og hvenær sprengigos verða í kjölfar þess að kvikuinnskot rekist á aðra bergkviku sem kann að liggja fyrir í rótum eldstöðva.

Meðal höfunda greinarinnar eru Freysteinn Sigmundsson, Sigrún Hreinsdóttir, Þóra Árnadóttir, Rikke Pedersen, Matthew Roberts, Níels Óskarsson, Páll Einarsson, Halldór Geirsson, Benedikt G. Ófeigsson og Hjörleifur Sveinbjörnsson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert