Biðu í blindhríð eftir skyggni

Viðgerðarflokkur RARIK sá ekki út úr augum á Háreksstaðaheiði. Myndin …
Viðgerðarflokkur RARIK sá ekki út úr augum á Háreksstaðaheiði. Myndin er úr myndasafni. mbl.is

Viðgerðarflokkur RARIK kom í Bakkafjörð nú síðdegis. Flokkurinn lagði af stað frá Egilsstöðum um fjögurleytið síðastliðna nótt. Þeir voru í sæmilegu veðri upp að Skjöldólfsstöðum á Jökuldal. Þá fór mjög að versna veðrið og ferðin að ganga hægt, samkvæmt upplýsingum frá bilanavakt RARIK á Egilstöðum.

Flokkurinn komst upp á Háreksstaðaheiði undir morgun en þar var ekkert skyggni. Viðgerðarmennirnir biðu í bílnum eftir því að skyggnið batnaði og sáu lengi vel ekki út úr augunum. Fyrirstaða var ekki mikil á veginum en sannkallaður blindbylur.

Bilun varð í gamalli loftlínu sunnan við Gunnólfsvík sem olli rafmagnsleysi í sveitinni í Bakkafirði að Skeggjastöðum. Díselrafstöð sér þorpinu á Bakkafirði fyrir rafmagni. Viðgerðarflokkurinn var kominn á viðgerðarstaðinn við Miðfjarðarnes í Bakkafirði um þrjúleytið og viðgerð hafin. Í góðu tekur þetta ferðalag tvo og hálfan til þrjá tíma.

Björn Ingvarsson, á bilanavakt RARIK, sagði nú síðdegis að enn væri rafmagn annars staðar á Austurlandi. Þá var farið að hlaða á línurnar en hiti var um frostmark og töluverð úrkoma. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert