Frávísunarkröfu Baldurs hafnað

Baldur Guðlaugsson
Baldur Guðlaugsson mbl.is

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur hafnað kröfu Baldurs Guðlaugssonar, fyrrverandi ráðuneytisstjóra, um að máli hans verði vísað frá dómi.

Baldur rökstuddi frávísunarkröfuna m.a. á þeirri forsendu að Fjármálaeftirlitið hefði 7. maí 2009 sent bréf þar sem sagði að rannsókn á málinu væri felld niður. Í bréfinu sagði jafnframt að eftirlitið áskildi sér rétt til að taka málið aftur til skoðunar ef ný gögn eða upplýsingar kæmu fram í málinu. Dómarinn taldi að ekki væri hægt að líta á þetta bréf sem ígildi lokaafgreiðslu máls og því væri ekki hægt að fella það undir ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu þar sem fjallað er um afgreiðslu mála.

Héraðsdómur benti einnig á að Hæstiréttur hefði á síðasta ári hafnað kröfu Baldurs um að rannsókn sérstaks saksóknara á ætluðum innherjasvikum hans yrði lýst ólögleg.

„Af þessu leiðir að engir þeir annmarkar eru á ákæru af þeim sökum sem tilgreindir  eru í greinargerð ákærða og verður ákæru málsins að hluta eða í heild hvorki vísað frá dómi á forsendum sem lýst er í greinargerðinni né af öðrum ástæðum,“ segir í niðurstöðu héraðsdóms.

Málið verður því tekið til efnislegrar umfjöllunar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert