Krapi truflar rafmagnsframleiðslu

Mikill krapi er í Laxá sem veldur erfiðleikum við rafmagnsframleiðslu.
Mikill krapi er í Laxá sem veldur erfiðleikum við rafmagnsframleiðslu. Birkir Fanndal Haraldsson

Ekki er hægt að keyra Laxárstöð á fullum afköstum vegna þess að mikill ís og krapi er í Laxá. Vél 3, sem gefur mest afl af þremur vélum virkjunarinnar, er ekki í notkun vegna vatnsskorts. Ekki er búið að gera við bilun í Akureyrarlínu.

Rafmagn fór af norðausturhorni landsins í gærkvöldi eftir að Akureyrarlína, milli Akureyrar og Laxárvirkjunar, bilaði. Þetta leiddi til þess að álag á vélar Laxárstöðva jókst með þeim afleiðingum að þeim sló út.

Mikill ís og krapi í Laxá hamlar raforkuvinnslu og er aðeins hægt að halda Laxárstöðvum 1 og 2 í gangi, en raforkuvinnsla í Laxárstöð 3 liggur niðri vegna krapa. Af þessum sökum er framleiða Laxárstöðva aðeins fjórðungur (5 MW) af því afli sem þær framleiða vanalega.

Reikna má með að það taki einhvern tíma að koma vatnsrennsli og orkuvinnslu í Laxá III aftur af stað.

Samkvæmt upplýsingum frá Landsneti voru allir almennir notendur í Þingeyjarsýslu komnir með rafmagn um klukkan 5 í nótt.

Andrés Bjarnason, vélfræðingur í Laxárstöð, var einn fjögurra starfsmanna sem unnu í stöðinni í alla nótt við að koma á rafmagni. Hann segir að áin sé full af ís og krapa og því sé ekki nægt vatn til að halda vél 3 gangandi, en hún gefi mesta orku. Laxárstöð er rennslisvirkjun og mjög lítið lón er við virkjunina. Andrés sagði að lónið sé fullt af ís og á meðan svo sé komi ekkert vatn inn á vélina.

Um kl. 14 í dag var ekki búið að finna bilunina á Akureyrarlínu, en ef að tekst að koma henni í notkun á ný fá allir næga orku á svæðinu. Veður er að skána á Norðurlandi og telja starfsmenn Laxárstöðvar hugsanlegt að hægt verði að taka vél 3 í notkun í kvöld ef aðstæður batna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert