Staðfest gæsluvarðhald vegna skotárásar

Skotgöt á útidyrahurð hússins við Ásgarð.
Skotgöt á útidyrahurð hússins við Ásgarð. mbl.is/Júlíus

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að maður, sem átti aðild að skotárás á raðhús við Ásgarð í Reykjavík á aðfangadag, skuli sæta gæsluvarðhaldi til 1. febrúar.

Tveir hæstaréttardómarar af þremur féllust á það með lögreglu, að sterkur grunur sé kominn fram um að maðurinn hafi framið brot sem geti varðað  10 ára fangelsi. Því sé gæsluvarðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.  

Einn dómari, Jón Steinar Gunnlaugsson, taldi hins vegar, að ekki væri sterkur grunur um að maðurinn hefði skotið úr haglabyssu á útihurð hússins í því skyni að meiða manninn sem í húsinu bjó og enn síður að svipta hann lífi. Því sé alls ekki unnt að útiloka að byssan hafi einungis verið sótt til að skjóta sér leið inn í húsið. Sú háttsemi, þótt refsiverð sé, geti ekki varðað 10 ára fangelsi og því eigi að fella gæsluvarðhaldsúrskurðinn úr gildi.

Fjórir karlmenn voru upphaflega handteknir vegna málsins og játuðu þeir aðild að því. Þeir sátu í gæsluvarðhaldi í rúma viku. Tveimur hefur verið sleppt en hinir tveir voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 1. febrúar.

Í úrskurði héraðsdóms er haft eftir húsráðanda í raðhúsinu, að hann hefði um nokkurt skeið þurft að þola hótanir og líkamsárásir frá nafngreindum manni og félögum hans. Þessi maður hafi margsinnis reynt að rukka sig vegna fíkniefnaviðskipta og hafi atgangur hans verið mjög ógnandi og hættulegan.

Húsráðandinn sagðist hafa fengið heimsókn þessa manns þann 21. desember.  Þegar hann hafi farið til dyra hafi gesturinn barið sig fyrir framan börn sín.

Á kvöldi Þorláksmessu komu menn að húsinu og voru með mikinn fyrirgang.  Á aðfangadag jóla komu einnig menn og bönkuðu á dyr.  Húsráðandinn sagðist þá hafa verið búinn að koma konu sinni og börnum út um bakdyr og til nágranna sinna og þegar mennirnir börðu dyra hefði hann stuggað þeim frá með því að stinga járnröri út um bréfalúgu.  Hann hafi síðan gengið frá og út um bakdyr og til nágranna sinna. 

Skömmu síðar hafi mennirnir skotið á útihurðina og inn um hana en inni í forstofuna væru merki þess að haglabyssuskot hafi lent.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert