Rýnivinnu samninganefnda gæti lokið í júní

Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra og aðalsamningamaður Íslands.
Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra og aðalsamningamaður Íslands. mbl.is

Íslendingar og Evrópusambandið eru um það bil hálfnuð í rýnivinnu sem gengur út á að skilgreina muninn á íslenskri löggjöf og þeirri evrópsku fyrir aðildarviðræður. Stefán Haukur Jóhannesson, aðalsamningamaður Íslands, segir að þeirri vinnu gæti lokið í júní.

Samningskaflar ESB eru 33 en í tíu þeirra hafa Íslendingar þegar tekið upp alla löggjöf sambandsins í gegnum EES-samninginn. Sagði Stefán Haukur á opnum fundi í Háskólanum í Reykjavík í dag að jafnvel verði hægt að ljúka þeim köflum strax í vor.

„Viðræðurnar eru í tæknilegum fasa núna. Verið er að bera saman löggjafir Íslands og ESB til þess að skilgreina hvað ber á milli til að undirbúa efnislegar umræður um kaflana. Þegar þessari rýnivinnu lýkur er gerð rýniskýrsla þar sem munurinn er skilgreindur,“ segir Stefán Haukur. Að því loknu verði Íslendingum boðið að leggja fram samningsmarkmið. 

Hann segir Evrópusambandið hafa sýnt að það sé viljugt til að leita sérlausna fyrir ný aðildarríki sem settu ákveðan sérstöðu á oddinn. Þetta sýni til dæmis samningur Finna við sambandið sem kvað á um sérlausn fyrir finnskan landbúnað. Þá fékk landbúnaður norðan 62 norðlægrar breiddargráðu sérstöðu.

Lausn Íslendinga þyrfti ekki að vera sú sama og Finna. ESB hafi hins vegar enga hagsmuni af því að rústa íslenskum landbúnaði. Það sé almennt viðurkennt og skilningur sé á sérstöðu okkar í landbúnaðarmálum. Í sáttmálum sé talað um að sérstakt tillit skuli taka til norðlægra slóða, útvarða landsvæðisins þar sem eru náttúrulega takmarkanir. 

„Auðvitað verður þetta notað í viðræðunum,“ segir Stefán Haukur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert