Hafnar tillögum um samningu skóla

Andstaða er við tillögurnar meðal foreldra í Korpuskóla.
Andstaða er við tillögurnar meðal foreldra í Korpuskóla. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Skólaráð Korpuskóla hafnar alfarið framkominni tillögu um sameiningu Korpuskóla og Víkurskóla. Skólaráð Korpuskóla getur ekki séð fjárhagslegan eða faglegan ávinning af þessum aðgerðum og hafnar með öllu þeirri meginbreytingu sem lögð er til í skólastarfi í Korpuskóla, og þeirri framtíðarbreytingu á Staðahverfi sem í breytingunni felst.


„Skólaráð Korpuskóla hafnar einnig alfarið frekari niðurskurði í skólahaldi og leggur til að forsvarsmenn Reykjavíkurborgar forgangsraði fjármunum í lögbundin verkefni sveitarfélaga. Síðustu tvö ár hefur skólum verið gert að skera niður rekstur um 13%, það er með öllu óásættanlegt að lengra verði gengið í þeim efnum. Því er það krafa skólaráðs Korpuskóla að boðaður niðurskurður verði dreginn til baka, ekki að hluta til eins og nú hefur verið gert heldur að fullu.


Skólaráð Korpuskóla krefst þess að formaður menntaráðs, formaður borgarráðs auk fulltrúa annarra flokka í borgarráði Reykjavíkur mæti á fund foreldra í Korpuskóla fyrir 18. mars n.k. þar sem framtíð Korpuskóla verður rædd. Í tólf ár eða frá stofnun Korpuskóla á Korpúlfstöðum 1999 hafa foreldrar þurft að berjast fyrir skólahaldi í Staðahverfi, nú er mál að linni og tími til komin að friður skapist um skólann og uppbyggingu hans. Skólaráð Korpuskóla áréttar einnig kröfu um viðbyggingu og heildstæðan grunnskóla í Staðahverfi í samræmi við gildandi þriggja ára áætlun Reykjavíkurborgar sem og staðfest skipulag Staðarhverfis frá 1996,“ segir í ályktun skólaráðs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert