Virkasta eldstöð landsins

Frá gosinu í Grímsvötnum 1996.
Frá gosinu í Grímsvötnum 1996. Rax / Ragnar Axelsson

Grímsvötn, í miðjum Vatnajökli, eru virkasta eldstöð Íslands og meðal öflugustu jarðhitasvæða jarðar.  Vitað er um tugi gosa frá landnámi sem tengjast Grímsvötnum, en síðast gaus þar í nóvember árið 2004.

Frá aldamótum hefur gosið í Grímsvötnum árið 1902, því næst 1922, 1933, 1934, 1938, 1945, 1954, 1983 og 1998 auk 2004. Algengt virðist vera að gosin þar vari frá einni og upp í þrjár vikur, en sum Grímsvatnagos virðast þó hafa varað miklu lengur, eins og árið 1873, þegar virðist hafa gosið í sjö mánuði. Árið 1922 varaði gosið í þrjár vikur og tvær árið 1934. Gosið 1998 stóð í tíu daga en ekki nema fjóra daga 2004. 

Miklar hamfarir hafa margsinnis orðið í tengslum við eldgos í Grímsvötnum enda verður samspil hraunkvikunnar undir jarðhitasvæðinu, við jökulbráð sem viðheldur vatni í Grímsvatnsöskjunni, til þess að jökulhlaup fylgja jafnan gosum á þessu svæði. Fyrsta Skeiðarárhlaupið sem heimildir eru til um varð árið 1629. Frá þeim tíma og til ársins 1934 komu hlaup á um tíu ára fresti að meðaltali. Voru þau allt að 67 rúmkílómetrum að magni og gat rennslið náð allt að 40 þúsund rúmmetrum á sekúndu.

Árið 1996 varð gos milli Grímsvatna og Bárðarbungu, á svæði sem hlaut nafnið Gjálp. Samkvæmt Jarðvísindastofnun virðist það gos hafa markað upphaf nýs virknitímabils í Vatnajökli. Það stóð frá 30. september til 14. október og varð fjórða mesta eldgos 20. aldar á Íslandi. Hlaup kom svo úr Grímsvötnum nokkrum vikum síðar. 

Þegar síðast gaus, árið 2004, hófst gosið að kvöldi til þann 1. nóvember í suðvestanverðum Grímsvötnum og náði gosmökkurinn í upphafi allt að 13 km hæð. Undir morgun hafði gosið brotist í gegnum íshelluna í Grímsvötnum, en Skeiðarárhlaup var þegar hafið áður en gosið hósft. Öskufalls gætti á Möðrudal að sögn bænda skömmu eftir að gosið hófst. Gosið varð kröftugast í upphafi en fljótt dró úr því og því lauk eftir um fjóra daga og varð því með styttri Grímsvatnagosum sem sögur fara af. Einhverjar breytingar urðu á flugáætlunum innanlands vegna gosmakkarins og alþjóðlegri flugumferð var beint suður fyrir landið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert