Ekki líkur á stóru hlaupi

Svona var ástandið við Freysnes við Skaftafell í morgun.
Svona var ástandið við Freysnes við Skaftafell í morgun. mynd/Hjalti Björnsson

Gunnar Sigurðsson, vatnamælingamaður á Veðurstofu Íslands, telur ólíklegt að búast megi við stóru hlaupi úr Grímsvötnum þó að gosið sé stórt. Ekki sé mikið vatn í sigkatlinum, en það hljóp úr honum sl. haust.

Fylgst er vel með sjálfvirkum mælum sem sýna leiðni og vatnshæð í ám á Skeiðarársandi. Vatnamælingamenn eru líka komnir austur. Gunnar sagði að það hefði komið fram aukin leiðni í Núpsvötnum í nótt, en vatnshæðin hefði ekkert breyst. Hann sagðist telja að líklegast skýringin væri öskufall.

„Það eru ekki líkur á stóru hlaupi þó að gosið sé stórt. Það er lítið vatn þarna fyrir. Ef þetta er innan Grímsvatnaöskjunnar þá er ísinn þar ekki mjög þykkur og ekki mikið efni til að bræða,“ sagði Gunnar. Hann sagðist setja þó þann fyrirvara á, að ef gosið væri á sprungu sem næði út fyrir öskjuna gæti orðið mikil bráðnun. Líklegast væri  að gosið væri innan öskjunnar, en vísindamönnum sem flogið hafa þarna yfir hefur ekki tekist að sjá niður á jökulinn til að sjá betur nákvæma staðsetningu.

Síðast þegar gaus í Grímsvötnum með þessum hætti kom gos um jólin og í kjölfarið kom hlaup í febrúar. Það var mun minna gos en þetta.

Í hlaupinu í haust fór mest allt vatnið í Gígjukvísl, en einnig í Núpsvötn. Ekkert hlaup fór niður gamla farveg Skeiðarár, en ástæðan er breytingar upp við jökulsporðana. Gunnar telur líklegast að hlaupið fari sömu leið nú nema að það verði mjög stórt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert