„Japönunum er ekki skemmt“

Það var dimmt við Freysnes í morgun.
Það var dimmt við Freysnes í morgun. mynd/Hjalti Björnsson

„Japönunum er ekki skemmt. Þeim fannst þetta spennandi fyrstu mínúturnar, en nú vilja þeir bara reyna komast í burt,“ segir Hjalti Björnsson leiðsögumaður sem er með 11 japanska ferðamenn í Freysnesi við Skaftafell.

Hópurinn gekk á Hvannadalshnjúk í gær og var á leiðinni niður af tindinum þegar gos hófst í Grímsvötnum. Ferðaáætlun hópsins var að vera fyrir austan í viku og fara í gönguferðir.  Hópurinn er núna fastur á hótelinu í Freysnesi. Hjalti sagði að sumir vildu koma sér í burtu, en eina leiðin sem hægt er að fara er að keyra austur fyrir því að vegurinn yfir Skeiðarársand er lokaður.

Hjalti sagði breytilegt hversu mikið öskufall væri í Freysnesi. Þetta kæmi í gusum. Stundum væri skyggnið 200-300 metrar, en síðan kæmu svört öskuský þannig að skyggnið yrði lítið.

Hjalti sagði að allir væru inn enda væri ekki verandi úti. „Askan er gróf og fer í augun. Þetta er eins og að fá sand í augun sem er ekki þægilegt.“

Um 130 ferðamenn eru á hótelinu í Freysnesi, en fjöldi manns stundar gönguferðir um helgar á þessum árstíma.

Hjalti er leiðsögumaður með annarri vinnu, en hann sagði að þessi byrjun á ferðasumrinu lofaði ekki góðu. „Ég hef trú á að það setji óhug að mönnum sem eiga mikið undir í þessari grein.“

Búið er að loka Keflavíkurflugvelli og alls óvíst með flug til og frá landinu á næstunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert