Dúxaði og bætti met bróður síns

Jón Hjalti Eiríksson.
Jón Hjalti Eiríksson. mbl.is/GSH

Jón Hjalti Eiríksson útskrifaðist frá Menntaskólanum á Laugarvatni síðastliðinn laugardag með meðaleinkunnina 9,78 en það er hæsta meðaleinkunn í 58 ára sögu skólans. Jón Hjalti bætti þar með met bróður síns, Ögmundar, sem útskrifaðist frá skólanum fyrir tveimur árum með meðaleinkunnina 9,75.

„Þetta breytir nú litlu,“ segir Jón og vill ekki gera mikið úr því að hafa skákað bróður sínum, „en þetta er ekkert verra,“ bætir hann svo við.

Það borgar sig víst að hafa ekki of hátt um afrekið því hætta er á að systir þeirra bræðra muni enn bæta um betur þegar hún útskrifast en hún var að ljúka fyrsta ári við skólann með meðaleinkunnina 9,9.

En hverju sætir þessi einstaklega góði námsárangur þeirra systkina?

„Ja, við erum ekki í neinum herbúðum,“ svarar Jón, „ætli þetta sé ekki eitthvert samspil erfða og umhverfis, eins og allt sem mótar okkur.“

Hann segir bóknámið hafa reynst þeim systkinunum auðvelt, sérstaklega raungreinarnar en Ögmundur tók m.a. þátt í Ólympíuleikunum í stærðfræði og nemur nú greinina við Háskóla Íslands.

Sjálfur stefnir Jón á nám í búvísindum við Landbúnaðarháskóla Íslands, enda orðinn reyndur í að láta bústörfin og lærdóminn fara saman.

„Á prófatímum er ég ekkert allan daginn í bókum, alla vegna ekki í vorprófum. Seinni hluta vorprófa er sauðburður heima og þá fer ég milli prófa út í fjárhús og kíki svo aðeins í bókina fyrir próf,“ segir dúxinn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert