22 brautskráðust á Húsavík

Brautskráðir nemendur FSH ásamt Laufeyju Petreu Magnúsdóttur skólameistara.
Brautskráðir nemendur FSH ásamt Laufeyju Petreu Magnúsdóttur skólameistara. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Framhaldsskólanum á Húsavík var slitið við hátíðlega athöfn í Húsavíkurkirkju sl. laugardag að viðstöddu fjölmenni. Að þessu sinni voru 22 nemendur brautskráðir frá skólanum, einn nemandi var brautskráður af starfsbraut og 21 nemandi var brautskráður með stúdentspróf. Samtals hafa 671 nemendur verið brautskráðir frá skólanum, 386 með stúdentspróf, 63 iðnnemar og 222 með önnur próf.

Ragnar marglaunaður dúx

Hæstu einkunn á stúdentsprófi hlaut að þessu sinni Ragnar Pálsson, I. einkunn 8,77. Ragnar fékk af þessu tilefni viðurkenningu frá Hollvinum skólans og Bókaverslun Þórarins Stefánssonar. Ragnar hlaut einnig  viðurkenningu fyrir góðan árangur í ensku frá Vátryggingarfélagi Íslands, viðurkenningu fyrir góðan árangur í dönsku frá sendiráði Danmerkur á Íslandi, viðurkenningu fyrir góðan árangur í þýsku frá sendiráði Þýskalands á Íslandi, viðurkenningu fyrir góðan árangur í raungreinum frá Háskólanum í Reykjavík, viðurkenningu fyrir góðan árangur í stærðfræði frá Íslandsbanka, Húsavík og viðurkenningu fyrir félagsstörf frá tómstunda- og æskulýðssviði Norðurþings, en Ragnar hefur á undanförum árum tekið virkan þátt í uppbyggingu félagsstarfs á vegum sveitarfélagsins og skólans í Keldunni og nú í Túni.

Við upphaf athafnarinnar lék Bóas Gunnarsson nýstúdent á gítar og fyrir brautskráningu lék fyrrnefndur Ragnar Pálsson nýstúdent lagið Bræður. Við lok athafnarinnar sungu og léku þeir Bóas og Davíð Helgi Davíðsson nýstúdent Leiðir liggja til allra átta, lag Sigfúsar Halldórssonar við texta Indriða G. Þorsteinssonar.

Nánari upplýsingar um útskriftina er að finna á vef skólans

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert