Bændur vita ekki hvar kindurnar eru

Aska safnast fyrir í augum og særir slímhimnuna. Það vall …
Aska safnast fyrir í augum og særir slímhimnuna. Það vall úr augum þessa lambs þegar það var tekið inn. mbl.is/Eggert

Linnulítið öskufall á Suðausturlandi er farið að taka sinn toll af búpeningi og fuglum en í gær bárust fréttir af því að sauðfé hefði fallið á bænum Arnardranga í Landbroti.

Gunnar Þorkelsson, héraðsdýralæknir á Kirkjubæjarklaustri, segir líklegt að dauða fjárins megi rekja til öskufallsins þó að það sé ekki fast í hendi. Óvíst sé hvort hræ fáist til rannsóknar. Ferðir á milli bæja eru erfiðar vegna öskukófsins. „Það tók fjórar atrennur að komast í eina [vitjun] í dag,“ segir Gunnar.

Gríðarlega erfitt viðureignar

En þó að dýralæknir komist í vitjun er ekki víst að vandamálin séu þess eðlis að hann sé fær um að leysa þau.

„Bændur vita ekki nákvæmlega hvar hver kind er. Húsplássið er búið. Þetta eru orðnir svo miklu fleiri einstaklingar en voru fyrir sauðburð. Svo er spurning hvort það fer nokkuð betur um þær inni í húsi, því þar er ekki alltaf hægt að loftræsta,“ segir Gunnar. Það er með öðrum orðum askan og blindan sem valda mestum skaða.

„Ég veit af fé sem hefur hrakist í skurði vegna þess að það hefur bara ekki séð neitt,“ segir Gunnar.

Fuglalífs verður heldur ekki vart á Kirkjubæjarklaustri. „Það er yfirleitt þúsundraddaður þrastakór sem vekur mann á morgnana,“ segir Gunnar. Frá því um morguninn í fyrradag hafi hann hins vegar heyrt einu sinni í álft en síðan ekki söguna meir. Hann hafi séð dauða smáfugla. Til marks um vandræðin sem þeir eru í greip hann ráðvillta sólskríkju á flugi. „Hann er í búri, í góðu yfirlæti með vatn og mat. Hann er hættur að vera styggur. Ég held að hann sé farinn að skilja ástæðurnar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert