OECD opnar „hamingjukvarða“

Íslendingar búa bara vel samkvæmt hamingjukvarðanum.
Íslendingar búa bara vel samkvæmt hamingjukvarðanum. Kristinn Ingvarsson

Efnahags- og framfarastofnun Evrópu, OECD, opnar í dag svokallaðan „hamingjukvarða“ á heimasíðu sinni, þar sem fólk getur valið þau málefni sem skiptir það mestu máli og séð hvernig heimaland sitt stendur að vígi.

Alls eru 11 breytur sem liggja „hamingjunni“ til grundvallar: húsnæði, tekjur, atvinna, félagsaðstæður, menntun, umhverfi, stjórnun stofnanna, heilbrigðismál, öryggi, almenn ánægja og jafnvægi milli vinnu og fjölskyldu.

Kvarðinn er m.a. byggður á tillögum frá Nóbelsverðlaunahafanum Joseph Stiglitz um það hvernig betur megi mæla vöxt öðruvísi en að miða eingöngu við hagvöxt.

Ísland skorar hátt hvað varðar ýmsar breytur kvarðans, t.d. fara 87% kvenna út á vinnumarkaðinn eftir barnseignir en meðaltalið annars staðar er 66%. Þetta þykir benda til þess að hér takist konum vel að finna jafnvægi milli vinnu og heimilis.

Meðalaldur hérlendis er 81 ár, tveimur árum yfir meðaltali og 98% fólks hefur einhvern til að reiða sig á þegar áföll dynja yfir en þetta er hæsta hlutfallið hvað þetta varðar innan landa OECD.

Enn fremur eru 66% Íslendinga sáttir við lífið en meðaltalið hinna landanna er 59%.

Niðurstöðurnar  eru reiknaðar eftir tölum sem safnað var saman 2008 og seinna.

Hægt er að sjá hvernig Ísland stendur og bera saman við 33 önnur lönd þegar kvarðinn verður birtur á heimasíðu OECD.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert