Reykjavíkurmaraþon undirbúið

Ritað var í morgun undir samstarfssamning um Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka árið …
Ritað var í morgun undir samstarfssamning um Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka árið 2011.

Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka sem fram fer í 28. sinn laugardaginn 20. ágúst nk. er í fullum undirbúningi þessa dagana. Í morgun var fundað með samstarfsaðilum hlaupsins þar sem hlaupið í fyrra var gert upp og farið yfir skipulag hlaupsins í sumar.

Skráning í Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka hófst í janúar og gengur vel, segir í tilkynningu, en alls hafa 1.242 skráð sig til þátttöku. Áætlað er að um 11.000 manns muni taka þátt í hlaupinu í sumar.

Hægt er að velja um sex vegalengdir: maraþon, hálfmaraþon, boðhlaup á maraþonbrautinni, 10 km hlaup, 3 km skemmtiskokk og Latabæjarhlaup. Skráning fer fram á marathon.is og eru hlauparar hvattir til að skrá sig í tíma því þátttökugjaldið hækkar eftir því sem nær dregur hlaupdegi.

Árið 2010 voru erlendir þátttakendur hlaupsins um þúsund talsins. Nú þegar hafa um 550 erlendir hlauparar skráð sig til þátttöku í hlaupinu í sumar frá 32 löndum. Samkvæmt niðurstöðum könnunar Reykjavíkurmaraþons á meðal erlendra þátttakenda í hlaupinu í fyrra staldra hlauparar lengi við hér á landi. Um fjórðungur hlaupara dvaldi hér á landi í 8-14 daga þegar þeir tóku þátt í Reykjavíkurmaraþoninu og um 40% þeirra í 5-7 daga.

Á meðal nýjunga í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka 2011 er nýr úrslitavefur sem gefur hlaupurum tækifæri á  að „framlengja" hlaupaupplifunin með því að skoða allskyns tölfræði tengdum árangrinum í hlaupinu. Áfram verður hægt að hlaupa til góðs og safna áheitum á hlaupastyrkur.is. Þessa dagana er unnið að því uppfæra og endurbæta áheitavefinn sem verður opnaður í lok mánaðarins.

Í dag var skrifað undir samninga við helstu samstarfsaðila hlaupsins en þeir eru Íslandsbanki, Vita, Asics, Powerade, Suzuki, Barilla og Margt smátt. Samstarfsaðilar Reykjavíkurmaraþonsins eru mjög tryggir og hafa flestir starfað með hlaupinu í mörg ár. Þetta trygga samstarf er mikils virði fyrir viðburðinn sem eins og Íslendingar þekkja hefur verið í örum vexti undanfarin ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert