Stal veski og notaði greiðslukort

Vestmannaeyjar.
Vestmannaeyjar. mbl.is/GSH

Lögreglunni í Vestmannaeyjum var í síðustu viku tilkynnt um konu á þrítugsaldri sem var að misnota greiðslukort, en hún hafði skömmu áður stolið veski sem kortin voru í. 

Konan fór á milli nokkurra verslana í bænum og náði að nota kortið til að kaupa vörur að verðmæti 40-50.000 krónur. Lögreglan handtók konuna skömmu eftir að tilkynning barst og viðurkenndi hún verknaðinn og skilað þeim vörum sem hún náði að svíkja út.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar í Eyjum. Þar segir einnig, að laust eftir hádegi á sunnudag var lögreglu aftur tilkynnt um búðarhnupl í verslun Krónunnar.  Þarna var  karlmaður á þrítugsaldri staðinn af því að fara út úr versluninni án þess að greiða fyrir þær vörur sem hann var með. 

Maðurinn viðurkenndi að hafa farið út án þess að greiða fyrir vörurnar og gaf þá skýringu að hann hafi gleymt því sökum eftirkasta skemmtanahalds nóttina áður.   

Ein líkamsárás var kærð til lögreglunnar eftir skemmtanahald helgarinnar en árásin átti sér stað bæði inni á veitingastaðnum Cornero og fyrir utan staðinn. 

Ósætti kom þar upp milli tveggja manna inni á staðnum sem endaði með átökum þeirra á milli og var þeim vísað út í framhaldi af því.  Þegar út kom byrjuðu átökin aftur og hafði sá þriðji þá bæst við og réðust tveir þá á þann sem lagði fram kæruna þannig að hann fékk m.a. áverka í andlit og á háls.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert