Áfram í gæsluvarðhaldi vegna misþyrminga

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjaness um að tveir menn sem grunaðir eru um að hafa misþyrmt þeim þriðja, sæti gæsluvarðhaldi til 27. maí. Sá sem varð fyrir misþyrmingunum var m.a. nefbrotinn og fékk fjölda annarra áverka.

Mennirnir voru handteknir í Hafnarfirði 11. maí eftir að lögreglu barst tilkynning um líkamsárás. Fram kom hjá lögreglu, að um hefði verið að ræða uppgjör í vélhjólaklúbbnum Black Pistons.

Í úrskurði héraðsdóms kemur m.a. fram mennirnir tveir hafi sótt hinn þriðja og farið með hann í hús þar sem hann mátti þola margvíslegar árásir. Hann hafi verið laminn ítrekað í höfuðið og líkama með ýmsum áhöldum, hann hafi verið hýddur með þykkri rafmagnssnúru, honum hótað að skornar yrðu í sundur sinar á fótleggjum og tennur dregnar úr honum.

Barsmíðarnar stóðu að sögn mannsins yfir allt fram til kl. 00:30 um nóttina. Þá hafi hann verið fluttur með einhvers konar hettu yfir höfðinu frá húsnæðinu og í geymsluhúsnæði þar sem honum var haldið til morguns. Þá sóttu mennirnir hann og óku honum í annað hús. Þar sökuðu þeir hann um að hafa gert á hlut þeirra og hann skuldi þeim 10 milljónir króna.

Enn var ekið af stað með manninn en honum tókst að sleppa út úr bílnum og gera lögreglu viðvart. 

Fram kemur í dómsúrskurðinum, að í kjölfar ofangreinds máls hafi lögreglunni borist tilkynning um að mennirnir tveir hefðu kúgað fé út úr nafngreindum manni.  Þann 18. maí sl. hafi lögreglan haft samband við viðkomandi sem staðfesti að hafa greitt mönnunum umtalsverða fjárhæð í því skyni að koma syni sínum undan þeim. Lögreglan hefur nú tekið þetta mál til rannsóknar.

Þá hefur lögreglan einnig fengið upplýsingar nýverið um að annar mannanna  hafi svipt annan mann frelsi og haldið föngnum og misþyrmt í bíl og í iðnaðarhúsnæði.  Rannsókn þess  máls er á algjöru frumstigi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert