Axarmaðurinn býr ekki í hverfinu

Mynd úr myndasafni.
Mynd úr myndasafni. Júlíus Sigurjónsson

Maðurinn, sem gekk um með exi og framdi innbrot í Vatnsendahverfinu í Kópavogi síðastliðinn sunnudag, er ekki búsettur í hverfinu. Samkvæmt upplýsingum frá hverfisstöð lögreglunnar í  Kópavogi var hann handtekinn og yfirheyrður um málið. Eftir að hann hafði játað aðkomu sína og skilað þýfinu, var honum sleppt.

Ekki er þó útséð um að honum muni bregða fyrir aftur á þessum slóðum, en að sögn lögreglu á hann vinkonu í húsi í hverfinu.

Fram kom á vefmiðlinum Svipunni í fyrradag að konu í hverfinu hefði verið illa brugðið þegar hún kom inn í íbúð sína að kvöldlagi. Þá kom hún að manni inni í svefnherberginu sínu, hún vísaði honum á dyr en hann brást hinn versti við, hóf exi á loft og veittist að henni.  Hún hljóp út úr íbúð sinni en innbrotsþjófurinn hljóp yfir í aðra íbúð fjölbýlishússins og faldi sig.

Maðurinn var á vegum konu sem býr í þeirri íbúð og mun hún vera vinkona hans, að sögn lögreglu. Hann var síðan færður burt í járnum, en kom fljótlega aftur á staðinn.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er lítið hægt að aðhafast í málinu.

Frétt Svipunnar


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert