Lýðræðið dregið í efa

„Hvert erum við eiginlega að halda?“ spurði ráðherrann.
„Hvert erum við eiginlega að halda?“ spurði ráðherrann. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Í ræðu sinni á 50 ára afmælisráðstefnu embættis ríkissaksóknara í dag sagði Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra að embættið hefði ekki farið varhluta af hræringum undangenginna ára og missera.

„Við höfum þurft að endurskoða og endurskipuleggja ýmsa þætti og nú síðast vegna mögulegra fjármálamisferla sem komið hafa til rannsóknar í kjölfar hruns fjármálakerfisins og grunsemda um misferli í tengslum við það,“ sagði ráðherra meðal annars.

Hann sagði Ísland vera öfgafullt dæmi um örar og ágengar breytingar og að lýðræðislegt vald byggi við stöðugan þrýsting af hálfu hagsmuna stórfyrirtækja og sterkra hagsmunahópa. Ófyrirsjáanlegar afleiðingar fordæmisgefandi dóma hefðu haft æ rótækari áhrif á sjálfa samfélagsgerðina.

„Lög sem sprottin eru af hinu lýðræðislega valdi eru túlkuð af dómstólum og samspil áhrifa stjórnarskrár, alþjóðasamninga og laganna sjálfra leiða æ oftar til niðurstöðu sem enginn vildi og enginn sá fyrir.“

Enn fremur sagði ráðherra:

„Ég minnist þess að þegar þjónustutilskipun Evrópusambandsins (social service directive) var samþykkt fyrir fáeinum árum eftir áralangt tog á milli félagshyggjufólks og frjálshyggjumanna þá fögnuðu báðar fylkingar sigri því báðar höfðu þær fundið syllu til að standa á í málaferlum framtíðarinnar um túlkun tilskipunarinnar. Á þennan heim erum við Íslendingar minntir þessa dagana þegar fulltrúar EFTA-dómstólsins segja okkur nú í hverjum fréttatímanum á fætur öðrum að til standi að dómstóllinn kanni hvort það standist lög og regluverk hins Evrópska efnahagssvæðis að almenningur sem á orkufyrirtækin á Íslandi hefði haft rétt á því að veita fjármagni úr opinberum sjóðum inn í fyrirtæki sín. Áhöld séu um að þetta standist markaðslögmál Evrópusambandsins! Lýðræðið – vilji almennings – er þannig dreginn í efa. Ég spyr: Hvert erum við eiginlega að halda?“

Ræðu ráðherra í heild sinni má nálgast hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka