Útskrifaður af gjörgæslu

Landspítalinn í Fossvogi.
Landspítalinn í Fossvogi. mbl.is/ÞÖK

Búið er að útskrifa karlmann sem slasaðist alvarlega í umferðarslysi í Kópavogi í síðasta mánuði af gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi.

Að sögn læknis á Landspítalanum var maðurinn útskrifaður þaðan í gærmorgun. En honum hafði verið haldið sofandi á deildinni frá því slysið varð þann 16. október. Hann var vakinn um helgina.

Aðdraganda slyssins má rekja til þess að gámabifreið var beygt í veg fyrir hjólreiðamann sem lenti á bifreiðinni og undir henni við endurvinnslustöð Sorpu. Bæði ökumaður bifreiðar og reiðhjóls voru á leið vestur Dalveg í Kópavogi. Á fyrirhugaðri akstursleið ökumanns er innakstursbann.

Ekki liggur fyrir á hvaða deild spítalans maðurinn var fluttur en hann er á batavegi að sögn læknis á gjörgæsludeildinni.

Lögreglan vinnur nú að rannsókn málsins, en hún beinist m.a. að meintu broti ökumanns bifreiðarinnar á umferðarlögum með því að aka í veg fyrir umferð gangandi og hjólandi, með því að aka gegn innakstursbanni og broti á hegningarlögum og með því að valda öðrum tjóni á líkama eða heilbrigði með gáleysi.

Þá lýtur rannsókn málsins að aðstæðum á vettvangi, m.a. hvernig staðið var að ákvörðun um bann við innakstri á þessum stað og hvort innakstur hafi verið auðveldaður ökumönnum á leið vestur Dalveg með breytingum á umferðarmannvirkjum.

Rannsakað verður jafnframt hvort vinnureglur og jafnvel fyrirmæli yfirmanna fyrirtækis sem þarna er með aðstöðu hafi gert ráð fyrir innakstri á nefndum stað. Í öllum tilvikum verður kannað hvort um refsiábyrgð geti verið að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert