Tvöföld til þreföld hækkun á þremur vikum

„Það er fyrst og fremst talsverð óvissa um þetta. Um 60% af framleiðendum harðra diska eru þarna á þessu svæði og það sem gerir stöðuna enn verri er að 75% af mótorframleiðslunni í sjálfa hörðu diskana á sér stað á þessu svæði líka,“ segir Gunnar Jónsson, sölustjóri Tölvulistans, um áhrif flóðanna í Taílandi á framboð á hörðum diskum í tölvur, en fyrirtækið er stærsti söluaðili slíkra vara hér á landi.

„Framleiðslan þarna náttúrulega bara stoppaði og verksmiðjur á floti og staðan bara mjög slæm og þetta hefur auðvitað haft töluverð áhrif á stöðuna á þessum markaði,“ segir Gunnar. Aðspurður hvort Tölvulistinn sé farinn að finna fyrir áhrifunum af þessu segir hann það aðallega hafa komið fram í verðunum.

„Við höfum verið að lenda í því að fá hækkanir oft á dag og diskarnir hafa auðvitað hækkað mjög mikið í innkaupum út af þessu vegna þess að það er skortur á þeim á heimsvísu. Við eigum diskana til og höfum lagt áherslu á að þeir verði áfram til fyrir okkar viðskiptavini. Við höfum sterka samstarfsaðila úti í heimi í þeim efnum,“ segir Gunnar.

Aðspurður hversu miklar hækkanirnar hafi verið segir Gunnar að um sé að ræða tvöfalda til þrefalda hækkun á þremur vikum. Hann segir óvissuna fyrst og fremst byggjast á því hversu langan tíma það kunni að taka að ná framleiðslunni á strik aftur. Um leið og aðstæður færist í fyrra horf aftur muni Tölvulistinn lækka verðið aftur.

„Menn eru að tala um að það verði jafnvel ekki komið jafnvægi á þennan markað fyrr en kannski á síðari hluta ársins 2012. Það tekur auðvitað líka tíma að anna þeirri eftirspurn sem mun safnast upp á meðan þetta ástand varir,“ segir Gunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka