Ráðuneyti endurskoðar reglur

Nýnemar í MR boðnir velkomnir með tolleringu.
Nýnemar í MR boðnir velkomnir með tolleringu. Rax / Ragnar Axelsson

Menntamálaráðuneytið mun endurskoða það fyrirkomulag sem haft hefur verið á innritun nýnema í framhaldsskóla í ljósi álits umboðsmanns Alþingis að það eigi sér ekki viðhlítandi stoð í lögum. Endurskoðað fyrirkomulag verður kynnt innan skamms, að því er segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Álit umboðsmanns var birt í dag.

Þar er bent á að fyrirkomulagið fólst í því að nemendum í tilteknum grunnskólum var veittur forgangur að 45% nýnemaplássa í vissum framhaldsskólum, m.a. með hliðsjón af búsetu og samgöngum. Sama fyrirkomulag var viðhaft við innritunina 2011 en hlutfallið lækkað úr 45% í 40%.

Ráðuneytið hafi talið að fyrirkomulagið ætti sér stað í lögum.

Allir 16-18 ára eiga rétt á námi við hæfi í framhaldsskóla

Í tilkynningu ráðuneytisins segir að í lögum um framhaldsskóla frá 2008 sé ákvæði um að öll ungmenni 16-18 ára skuli eiga rétt á að stunda nám við hæfi í framhaldsskóla. Í lögunum sé ekki tilgreint nánar hvernig sá réttur skuli tryggður. „Það hefur því verið verkefni ráðuneytisins í samráði við framhaldsskólana að útfæra það, enda um sameiginlegt verkefni allra framhaldsskóla landsins að ræða. Hluti af þeirri útfærslu var umrædd forgangsregla. Hún byggist á því að skapa skýrari tengsl framhaldsskóla við nærumhverfi sitt en en veita um leið nemendum kost að velja sér nám í ólíkum skólum. Innritun nýnema gekk mjög vel árið 2011. Allir nýnemar fengu skólavist og rúmlega 98% í öðrum þeirra tveggja skóla er þeir sóttu um og tæp 87% í skóla er þeir völdu númer eitt,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.

Harðlega gagnrýnd af skólastjórnendum

 Innritunarregla ráðuneytisins var þó reyndar töluvert gagnrýnd, eins og kom fram í frétt Morgunblaðsins 4. júní 2010.

„Ég er mjög ósáttur,“ sagði Ingi Ólafsson, skólastjóri Verzlunarskóla Íslands. „Það er ætlast til þess að Verzlunarskólinn veiti nemendum úr fjórum skólum forgang, en nú þegar hafa nemendur úr um sjötíu skólum sótt um skólavist. Okkur finnst þetta ekki sanngjarnt.“

Yngvi Pétursson, rektor Menntaskólans í Reykjavík, tók í sama streng. Hann sagði að fyrirkomulagið væri skref aftur á bak og að nemendur sætu ekki lengur við sama borð. „Nemendur úr Vesturbænum hafa t.a.m. forgang að tveimur bekkjarkerfisskólum á meðan nemendur úr öðrum hverfum borgarinnar kunna að hafa eingöngu forgang að skólum með áfangakerfi. Æskilegra hefði verið að taka mið af skólagerðum,“ sagði Yngvi, sem kvaðst hafa verið ánægður með fyrra kerfi.

Rektor MH gaf reglunni tækifæri

Lárus H. Bjarnason, rektor Menntaskólans við Hamrahlíð, taldi breytingarnar til marks um eðlilega viðleitni. „Þetta er ekki algjör hverfaskipting, en leysir hugsanlega vandann. Ég ætla í það minnsta að gefa þessu tækifæri fyrst um sinn áður en ég gagnrýni þetta,“ sagði Lárus.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert