Norðmenn og ESB semja um makrílinn

Evrópusambandið og Noregur hafa samið um makrílkvóta sín á milli það sem eftir er af þessu ári samkvæmt fréttavefnum Fishupdate.com. Samningar þess efnis voru gerðir í kjölfar þess að ekki náðist að semja um skiptingu makrílstofnsins í Norður-Atlantshafi á milli ESB, Noregs, Íslands og Færeyja á fundi sem fram fór í Reykjavík í janúar síðastliðnum.

Samkvæmt samkomulaginu fær ESB samtals kvóta upp á rúmlega 396 þúsund tonn og er í samræmi við fyrri samninga á milli sambandsins og Noregs um skiptingu makrílkvótans. Haft er eftir sjávarútvegsráðherra Noregs, Elizabeth Berg-Hansen, í fréttinni að hún sé ánægð með samkomulagið.

„Þetta er góð niðurstaða fyrir norskan sjávarútveg. Hins vera munum við halda áfram  þeirri vinnu að koma á varanlegum samningi strandríkjanna um stjórn makrílveiðanna á næstu árum,“ sagði Berg-Hansen eftir að samningarnir voru undirritaðir.

Þá kemur fram í fréttinni að norsk stjórnvöld hafi ekki í hyggju að semja við Færeyinga um gagnkvæm kvótaskipti á öðrum fisktegundum eins og þeir hafa gert til þessa fyrr en makríldeilan hefur verið leyst. Fram kemur einnig að áhugavert verði að sjá hvort Norðmenn eigi eftir að grípa til sömu aðgerða gegn Íslendingum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka