Ekkert sem bannar hjólreiðar á akbrautum

Hjólreiðar eru góður og hollur ferðamáti
Hjólreiðar eru góður og hollur ferðamáti mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Vegna frétta sem borist hafa um óhöpp og slys sem rekja má til ógætilegs aksturs þar sem við sögu koma bílar og reiðhjól vill Umferðarstofa leggja áherslu á að hjólandi  vegfarendur hafa fullan rétt á að vera á akbrautum. Á gangstígum má hjóla en þó með því skilyrði að gangandi sé sýnd tillitsemi og forgangur.

Bendir Umferðarstofa á að mikilvægt sé að hjólreiðamaður hægi á sér og gefi hljóðmerki áður en hjólað er fram úr gangandi vegfaranda.

Ökumaður skal sýna hjólandi þolinmæði og veita gott svigrúm, t.d. við þröngar aðstæður.

Yfirleitt kemst hjólreiðamaður ekki eins hratt og akandi og því er mikilvægt að ökumenn horfi vel fram fyrir sig og séu þess viðbúnir að hægja skuli för.

Ef mögulegt er skal hjólreiðamaður helst ekki hjóla á akbraut þar sem leyfður hámarkshraði er meiri en 60 km/klst. 

Hjólandi vegfarandi þarf að gæta þess að vera vel sjáanlegur. Í grundvallaratriðum gilda sömu umferðarreglur fyrir hjólandi og akandi og brýnt að eftir þeim sé farið.

Þegar hjólreiðamaður þverar akbraut á gangbraut skal hann gæta þess að fara ekki hraðar en sem nemur hraða gangandi vegfaranda og huga vel að annarri umferð.

Allir hjólreiðamenn eru hvattir til að nota hjálm en börnum yngri en 15 ára er skylt að vera með hjálm á hjóli.

Varðandi það óhapp sem átti sér stað á Miklubraut er rétt að hafa í huga að ökumaður ber ábyrgð á því að hann geti stöðvað eða hægt á sér tímalega ef ástæða er til. Í 36. gr. umferðarlaga kemur m.a. fram að hraðinn má aldrei verða meiri en svo að ökumaður geti stöðvað ökutækið á þeim hluta vegar fram undan, sem hann sér yfir og áður en kemur að hindrun, sem gera má ráð fyrir. Sérstök skylda hvílir á ökumanni að aka nægilega hægt miðað við aðstæður.

Í hinu tilfellinu sem árekstur.is vísar til þar sem hjólreiðamaður fer viðstöðulaust yfir gangbraut og þverar þannig umferð um akbraut skal hann gæta þess að fara ekki hraðar en sem nemur hraða gangandi vegfaranda og huga vel að annarri umferð.

Það er því brýnt að vekja athygli á þessu svo ekki falli skuggi á þennan annars örugga og heilsusamlega ferðamáta sem hjólreiðar eru, segir Einar Magnús Magnússon, upplýsingafulltrúi Umferðarstofu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert