Ferðalögin eiginlega orðin að fíkn

Í fjallahéraði í Búrúndí.
Í fjallahéraði í Búrúndí. Ljósmynd/Eric Hill

Heimshornaflakkarinn bandaríski Eric Hill er staddur á Íslandi þessa daganna en hann hefur það að markmiði að heimsækja öll heimsins lönd á nýju heimsmeti. Ferðalagið hófst í febrúar og er Ísland 18. landið sem hann fer um síðan þá. Hingað kom hann frá Súdan og hitamismunurinn því gríðarlegur.

Hill starfar hjá öryggisvörslufyrirtæki í Kaliforníu. Hann segir ferðalögin ástríðu en um ævina hefur hann ferðast til 74 landa. Það telur þó ekki í atlögunni að heimsmetinu sem hófst í Norður-Kóreu í febrúar. Nú síðast var Hill í Afríku þar sem hann fór um sjö lönd og Norður-Evrópa er næst á dagskrá. „Ég vil ekki vera of lengi í hverri heimsálfu, bæði þarf ég fjölbreytni en einnig verð ég að hugsa um þá sem fylgjast með ferðum mínum og að þetta sé áhugavert og spennandi fyrir þá. Ég fer því hingað og þangað um heiminn á frekar stuttum tíma.“

Tilgangur ferðalagsins er þó ekki aðeins téð heimsmet hefur leitast Hill við að finna hamingjusamt fólk í hverju landi og eitthvað magnað (e. Finding awesome in every country). „Ég fór til dæmis til Sýrlands og heimsótti þar bæ sem varð fyrir sprengjuregni aðeins örfáum dögum áður. Meira að segja þar voru brosandi börn að leik og fólk vann saman við að endurbyggja bæinn sinn. Fólkið það var hamingjusamt. Þetta er það sem ég leita að. Það hljómar kannski ótrúlega en í hverju landi má finna gott og hamingjusamt fólk, meira að segja í þeim löndum sem maður býst síst við því.“

Til Íslands kom Hill á þriðjudag fyrir viku og hugðist hann yfirgefa landið í dag. „Fyrstu daganna þurfti ég hins vegar að vinna mikið í tölvunni þannig að ég fór lítið sem ekkert út og ekkert út fyrir Reykjavík. Þá hefur veðrið sett strik í reikninginn þannig að ég yrði ekki ánægður með að fara í dag. Ég ætla því að vera hér jafn lengi og þarf til að geta sýnt hvað landið er í raun dásamlegt.“

Hill heldur úti vefsvæði og setur inn myndir og ferðasögu sína á samfélagsmiðlana Facebook, Twitter, Youtube og Instagram. Samkvæmt þeim síðum er hann hins vegar enn í Afríku og helgast það af því að hann setur inn efni þremur vikum eftir að hann hefur verið á hverjum stað. Því má búast við myndum og lýsingum Hills af Íslandi í lok mánaðar.

Héðan fer Hill svo til Noregs, Svíþjóðar, Finnlands og Eystrasaltsríkjanna. Eftir það er hugsanlegt að hann haldi til Suður-Ameríku en það er þó aðeins óljóst sem stendur. „Eftir því sem ég ferðast meira þá breytist áætlunin því svo margt getur komið upp á.“ Hann hefur þó ekki áhyggjur af því að ná ekki að setja nýtt heimsmet. „Heimsmeti ðer þrjú ár, þrír mánuðir og sex dagar. Ef ég verð degi fljótari þá er það nóg. En heimsmetið er þó í sjálfu sér aukaatriði, ferðalagið er aðalatriðið.“

Þegar hann yfirgefur Ísland á Hill eftir 174 lönd á ferðalaginu. En hann óttast ekki að þreytast og gefast upp. „Þetta er eiginlega eins og fíkn. Eftir því sem ég ferðast meira rennur upp fyrir mér hvað ég á eftir að sjá mikið og þeim mun spenntari verð ég fyrir næstu áfangastöðum.“

Hér má fylgjast með ferðum Erics Hill

Sýrlenski bærinn A'zaz var nánast rústir einar.
Sýrlenski bærinn A'zaz var nánast rústir einar. Ljósmynd/Eric Hill
Ferðalagið hófst í Norður-Kóreu.
Ferðalagið hófst í Norður-Kóreu. Ljósmynd/Eric Hill
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka