Cessna-flugvélin var of þung

Cessna-flugvél sem brotlenti við Syðra-Langholt í Hraunamannahreppi í apríl 2010.
Cessna-flugvél sem brotlenti við Syðra-Langholt í Hraunamannahreppi í apríl 2010. mbl.is/Guðmundur Karl

Cessna-flugvél sem brotlenti við Syðra-Langholt í Hraunamannahreppi í apríl 2010 var of þung og í of lítilli hæð að mati Rannsóknarnefndar samgönguslysa.

Flugmaðurinn hafði ekki reynslu af því að fljúga þessari gerð flugvélar, undirbúningur fyrir flugið var takmarkaður og flogið var í lítilli hæð og því lítið svigrúm til leiðréttingar og til að ná nægilegum flughraða.

Þetta kemur fram í skýrslu Rannsóknarnefndar samgönguslysa. sem birt var fyrr í vikunni. Fjórir voru um borð, flugmaðurinn og farþegi slösuðust talsvert en aðrir farþegar minna.

Flugmaðurinn og farþegi í framsæti vélarinnar slösuðust alvarlega og voru fluttir með þyrlu Landhelgisgæslunnar til Reykjavíkur á sjúkrahús til aðhlynningar. Farþegar í aftursætum slösuðust minna.

Annar vildi kanna eldgosið, hinn vildi fara í kynningarflug

Í skýrslunni kemur fram að tveir menn, sem báðir voru með flugmannsréttindi, hafi skoðað vélina í sameiningu til að gera hvorn sinn leigusamning um notkun á vélinni.

Mennirnir höfðu þó hvor sína hugmyndina um það hvernig flugið færi fram. Flugmaðurinn ætlaði að fara í kynningarflug ásamt því að fara í útsýnisflug um yfirstandandi eldgos á Fimmvörðuhálsi. Farþegi í framsæti vélarinnar, sá sem ætlaði einnig að gera leigusamning, taldi flugið vera tveggja klukkustunda kynningarflug um Suðurland til að prófa vélina.

Við rannsókn málsins kom fram að farþeganum líkaði ekki hvernig væri flogið, hann hikaði þó við gera athugasemdir sökum mismunar á heildarreynslu þeirra.

Þá hafði flugmaðurinn hafði það eftir öðrum flugmanni að það væri í góðu lagi að fljúga vélinni með þrjá farþega og fulla bensíntanka. Ekki voru því gerðir jafnvægis-og þyngdarútreikningar. Í skýrslunni segir að vélin hafi verið of þung

Skýrsla Rannsóknarnefndar samgönguslysa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert