Vill Stefán Loga í 6 ára fangelsi

Stefán Logi Sívarsson.
Stefán Logi Sívarsson.

Vararíkissaksóknari fer fram á að Stefán Logi Sívarsson verði dæmdur í 6 ára fangelsi, Stefán Blackburn í fimm og hálft ár og þrír aðrir karlmenn í 3-4 ára fangelsi fyrir að hafa svipt tvo unga karlmenn frelsi sínu, haldið þeim í margar klukkustundir og beitt þá mjög alvarlegu ofbeldi á þeim tíma.

Auk þess eru fleiri ákæruatriði í málinu og er Stefán Logi meðal annars ákærður fyrir árás á barnsmóður sína og fyrir ítrekaðan akstur undir áhrifum vímuefna. Stefán Blackburn er einnig ákærður fyrir akstur undir áhrifa vímuefna og fyrir að ráðast á karlmann fyrir utan skemmtistað í miðborg Reykjavíkur.

Sækjandi í málinu lauk málflutningsræðu sinni í hádeginu í dag. Áður hefur á mbl.is verið greint frá því að saksóknari sagði að reynt hefði verið að þagga niður í vitnum með hótunum. Hann sagði einnig að það sé gríðarleg vinna að baki því að tína saman frásagnir vitna og sakborninga og púsla saman mynd af því sem fram fór 30. júní og 1. júlí í fyrra. „Þarna er afbrýðisemi og einhvers konar eignarréttur sem virðist drífa Stefán Loga áfram. Auk þess virðist ekki mikið fara fyrir heilbrigðri skynsemi og yfirvegun hjá þessum mönnum,“ sagði Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari, og bætti við að það mætti rekja til þess að menn hafi verið vakandi í marga daga og notað mikið af fíkniefnum og sterum og drukkið mikið áfengi.

Helgi Magnús segir að í gang hafi farið atburðarrás sem flestir geti engan veginn skilið. Komið hafi fram að þetta hafi verið einhver „fíkniefna-stera-geðveiki“ og sagði Helgi Magnús að það sé ágætis lýsing. „Þetta er einhvers konar algjört rugl sem skýrir það af hverju þessi einkennilega atburðarrás hefst. [...] Þetta lýsir mjög sjúku hugarfari og tryllingi.“

Óþarfi er að rekja atburðarrásina í smáatriðum enda var farið yfir hana á mbl.is þegar fórnarlömbin í málinu gáfu skýrslu fyrir dóminum. Helgi Magnús sagði framburð þeirra trúverðugan og raun hógværan. Ekkert sé dregið undan en um leið viðurkenni fórnarlömbin þegar þeir geti ekki staðfest einstaka atriði. Eins langt og framburður sakborninga nái styðji hann framburð fórnarlambanna, eins og niðurstöður tæknirannsókna.

Tók Helgi Magnús fram að ekkert komi hins vegar fram í framburði Stefáns Loga og Stefáns Blackburn. Varðandi það sem Stefán Logi hafi þó sagt, t.d. að hann hafi verið brotinn á báðum höndum og því hafi hann ekki getað tekið þátt í neinum árásum, þá sýni gögn málsins að það sé ótrúverðugur framburður. Vitnaði Helgi Magnús í læknisvottorð sem sýni fram á að Stefán Logi hafi ekki verið handarbrotinn á þessum tíma, og einnig í upptöku af skýrslutöku hjá lögreglu þar sem vel sjáist að hann er ekki handarbrotinn.

Saksóknari nefndi að þegar hann var spurður um það hvað hafi getað orðið til þess að ráðist var á mennina hafi Stefán Logi sagt hugsanlegt að hinir hafi verið að reyna þóknast honum, en það hafi þeir þá gert óumbeðnir. „Hann taldi hugsanlegt, og er það lýsandi fyrir samband sakborninga í málinu, að þeir hefðu gert það til að ganga í augun á honum. Óumbeðnir, eins trúverðugt og það nú er. Þetta er eitthvað mjög sérstakt og afbrigðilegt þóknunarsamband. Það að þeir hafi þóknast honum og hefnt hans, en því er lýst aftur og aftur í málinu.“

Saksóknari sagði að Stefán Logi væri stórhættulegur umhverfi sínu og tilviljun sem ráði því hver láti fyrst lífið, hann sjálfur eða einhver sem verður fyrir honum. Hann hafi gerst uppvís að því að aka bifreið undir verulegum áhrifum vímuefna í sex skipti og í eitt af þeim skiptum valdið árekstri. Þá hafi hann tvívegis ruðst inn á heimili foreldra barnsmóður sinnar, með ofbeldi í annað skiptið, auk annarra atriða sem lýst hefur verið áður. Hann eigi sér engar málsbætur. 

Sama sagði hann eiga við um Stefán Blackburn, að hann sé stórhættulegur umhverfi sínu og hafi meðal annars ekið próflaus og undir verulegum áhrifum vímuefna með þeim afleiðingum að hann ók bifreið sinni yfir á rauðu ljósi og inn í hlið annars bíls. Tilviljun hafi ráðið því að ekki hafi farið mjög illa. Þá hafi hann sýnt fullkomið skeytingarleysi þegar hann réðst að fórnarlömbunum tveimur í málinu og meðal annars sparkað í höfuð liggjandi manns.

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari sækir málið.
Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari sækir málið. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert