Ebba styður Pistorius í réttarsal

Oscar Pistorius í réttarsal í dag. Fyrir aftan hann situr …
Oscar Pistorius í réttarsal í dag. Fyrir aftan hann situr fjölskylda hans og stuðingsmenn, en Ebba Guðný og móðir hennar eru á meðal þeirra. AFP

Ebba Guðný Guðmundsdóttir og móðir hennar eru á meðal viðstaddra sem fylgjast með réttarhöldunum yfir spretthlauparanum Oscar Pistorius sem fara nú fram í borginni Pretoríu í Suður-Afríku. Ebba hefur þekkt Pistorius náið frá árinu 2005, og hefur hann reynst syni hennar vel. Bæði hann og Pistorius fæddust sperrileggja, aðeins með stúfa fyrir neðan hné, líkt og fram kemur í viðtali sem birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins fyrir einu ári.

Pistorius var ákærður fyrir að hafa myrt unnustu sína, Reevu Steenkamp, á heimili þeirra 14. febrúar á síðasta ári.

Ebba segir í samtali við mbl.is, að hún hafi komið til S-Afríku ásamt móður sinni, Sigríði Hönnu Jóhannesdóttur, sl. sunnudag. Hún hefur verið viðstödd aðalmeðferðina í réttarsal alla þessa viku, en mbl.is hafði samband við Ebbu skömmu eftir að aðalmeðferð dagsins lauk í dag.

Trúir Pistorius

Aðspurð segist hún hafa mætt til að sýna vini sínum og fjölskyldu hans stuðning á erfiðum tímum. Hún hefur m.a. farið í viðtöl í suðurafrískum fjölmiðlum „svo ég geti sagt okkar sögu af því að fólk horfir á þetta sem sápuóperu. Þetta er einhver maður og kona sem enginn þekkir neitt og það er svo auðvelt að líta á þetta sem einhverskonar leikhús,“ segir Ebba og bætir við að sú fjölmiðlaathygli sem málið hefur vakið minni einna helst á sirkus.

Hún segist vonast til þess að fólk átti sig á því að réttarhöldin snúist um fólk af holdi og blóði sem eigi um sárt að binda.

„Ég trúi algjörlega að þetta hafi gerst eins og hann segir,“ segir Ebba, sem mætti fyrst í réttarsalinn sl. mánudag. Hún hyggst fylgjast með réttarhöldunum þar til hún fer aftur heim 13. mars nk.

„Við erum búin að þekkja Oscar svo lengi og höfum fylgst með því hvernig hann varð frægari og frægari og stærri og stærri. Ég gerði mér því alveg fulla grein fyrir því að þetta yrði svona eins og þetta er. Það er því ekkert sem hefur komið mér á óvart,“ segir Ebba.

Mikill sársauki

Ebba tekur fram að hún finni enn betur hvað allir hlutaðeigandi eigi um sárt að binda eftir að hún kom til S-Afríku. „Í réttarsalnum, í návígi við Oscar og fjölskyldu hans ásamt fjölskyldumeðlimum Reevu í réttarsalnum finnur maður enn betur hvað þetta er öllum erfitt.“ segir hún.

„Ég bið fyrir því að sannleikurinn komi fram því það er það sem allir vilja. Það er enginn að biðja um neitt nema sannleikann.“

Hún segir að Pistorius sé mjög viðkunnanlegur og ljúfur maður. „Hann er með stórt og hlýtt hjarta, örlátur og hógvær með sérlega góða nærveru. Og einstakt hvað hann hefur alltaf verið góður við börnin mín og okkur. Hann er enginn ofbeldismaður,“ segir Ebba ennfremur. En hún vill bæta við að samúð þeirra allra liggi ekki síður hjá Reevu og fjölskyldu hennar, sem hafa misst svo mikið.

Viðtal í beinni útsendingu í Suður-Afríku

Ebba svarar því neitandi er hún er spurð hvort hún hafi náð að ræða beint við Pistorius. „Við höfum hitt fjölskyldu hans en aðeins hitt hann enn sem komið er í réttarsalnum. Hann hefur viljað hitta okkur en hann er upptekinn með lögfræðingum sínum allan sólarhringinn nánast, enda maður að berjast fyrir lífi sínu. Við hittum hann án efa í dag eða morgun. En fyrir okkur skiptir mestu máli að hann sé að einbeita sér að málinu, fari snemma að sofa og reyni að halda styrk því dagarnir eru honum mjög erfiðir. Við komum til að hjálpa, ekki til að auka álagið,“ segir Ebba.

Í gærkvöldi var hún í beinni útsendingu í viðtali hjá suður-afríska fréttamanninum Derek Watts þar sem hún sagði sína sögu. Þar að auki hefur hún verið í viðtali hjá NBC New York. Aðspurð segir Ebba að margir fréttamenn hafi komið að máli við hana veltandi fyrir sér hvað hún og mamma hennar væru að gera í réttarsalnum. Hún segir viðtölin hafa gengið ágætlega en hún bætir við að það hafi hjálpað henni mikið að vera vön tökuvélunum. „Þetta væri  mikið stress og álag ef ég væri ekki vön myndavélum.“

Ebba segir það skyldu sína að reyna að liðsinna Pistorius. Umfjöllun um hann hafi verið afar neikvæð og erfitt sé að horfa upp á þegar verið er að eyðileggja mannorð hans og gera lítið úr öllu því góða sem hann hefur gert. En þar sé líka málið að hann er ekki maður sem gortar af góðverkum sínum.  

 „Ég er þakklát og glöð að hafa fengið tækifæri til að geta lagt honum lið því hann á það svo sannarlega skilið,“ segir Ebba að lokum.

Ebba Guðný Guðmundsdóttir sést hér í réttarsal (1.t.h.) en hún …
Ebba Guðný Guðmundsdóttir sést hér í réttarsal (1.t.h.) en hún situr við hlið Aimee Pistorius, sem er systir spretthlauparans. AFP
Í gærkvöldi var hún í beinni útsendingu í viðtali hjá …
Í gærkvöldi var hún í beinni útsendingu í viðtali hjá suður-afríska fréttamanninum Derek Watts
Ebba Guðný Guðmundsdóttir.
Ebba Guðný Guðmundsdóttir.
Pistorius ásamt Hafliða Hafþórssyni, syni Ebbu.
Pistorius ásamt Hafliða Hafþórssyni, syni Ebbu.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert