Verða þakklát fyrir hverja mínútu sem gefst

„Við verðum þakklát fyrir mínútu, ánægð með klukkutíma og hæstánægð ef við fáum lengri tíma en það ofan í gljúfrinu,“ segir Guðbrandur Örn Arnarson, sem stjórnaði aðgerðum í Bleiksárgljúfri um helgina við leitina að Ástu Stefánsdóttur.

Næstu helgi stendur til að flytja rennsli árinnar í eins langan tíma og hægt er svo unnt sé að leita á botninum.

Að sögn Guðbrands er í sjálfu sér allt tilbúið til að fara í framkvæmdina, en þegar á hólminn var komið reyndist þurfa brattara hné, eða horn sem tengir rörin ofan í gljúfrið, áður en hægt væri að dæla þau full af vatni. Ekki verður því ráðist í verkið fyrr en að næstu helgi, en þess utan þurfa líka björgunarsveitirnar á hvíld að halda.

Þurfa að eiga við mikla krafta 

„Stóra verkefnið um helgina verður að tryggja öryggið á staðnum og að þetta fari allt farsællega. Það koma fjöldamargir aðgerðarstjórnendur að, en heimamenn eru orðnir þreyttir og þarf að gefa þeim frí enda eru þeir búnir að standa sína vakt sleitulaust í á aðra viu,“ segir Guðbrandur sem sjálfur er í björgunarsveitinni Kyndli í Mosfellsbæ auk þess að starfa hjá Landsbjörg.

Um liðna helgi voru það björgunarsveitir af suðvesturhorninu sem leystu heimamenn í Rangárþingi af, en óhætt er að segja að kraftar víða að séu samstilltir við það erfiða verkefni sem leitin í gljúfrinu er.

„Það hafa komið að þessu lærðir einstaklingar úr ýmsum fræðum, bæði verkfræði og pípulögnum, smiðir og annað. Ég get líka alveg fullyrt að ef það hefði vantað einn af þessum hópum þá væri þetta ekki framkvæmanlegt. Við urðum til dæmis að hafa fjallabjörgunarmenn með þekkingu á þeim miklu kröftum sem við er að eiga, því þetta eru miklar þyngdir sem þarf að bera þarna inni.“

Rörin sem búið er að koma fyrir í gljúfrinu voru ferjuð þangað með loftbrú sem búin var til, ekki ósvipað kálfum á skíðasvæðum. Þótt umfangið sé mikið var þetta að sögn Guðbrands allt saman gert án þess að af því yrði varanlegur skaði á umhverfinu. „Það eru lágmarksummerki í náttúrunni og í raun verður ekkert sjáanlegt eftir þessa framkvæmd annað en göngustígur sem hefur myndast þarna, því við höfum farið með mikinn mannskap inn í gljúfrið. En það mun gróa í sumar.“

Tiltölulega einföld eðlisfræði

Ekki er vitað fyrir víst fyrirfram hversu langan tíma verður hægt að halda vatninu úr gljúfrinu svo unnt verði að leita þar, en Guðbrandur segir þó að verið sé að vinna með tiltölulega einfalda eðlisfræði í þessu. 

„Búnaðurinn mun halda eins lengi og hann þarf, en við megum ekki tæma hylinn fyrir ofan fossinn því þá missum við þrýstinginn og það kemst loft inn í kerfið. Þannig að við þurfum að reyna að sjúga rétt magn af vatni,“ segir Guðbrandur.

„Það er þessi mismunakraftur, sem menn þekkja ef þeir hafa tekið bensín með gúmmíslöngu, eins og við höfum stundum þurft að gera þegar bæta þarf bensíni við vélsleða á fjöllum. Þá erum við ekki með neinar rafmagnsdælur heldur þurfum að kunna eðlisfræði.“

Aðspurður um kostnað við efni og umfang segir Guðbrandur að hann liggi í raun fyrst og fremst í eldsneyti og múrboltum. „Við höfum notið mikillar velvildar hjá röraverksmiðjunni Set á Selfossi, sem hefur lánað okkur dýrasta þátt framkvæmdarinnar. Að öðru leyti er þetta bara vinnukostnaðurinn sem hver og einn björgunarsveitarmaður leggur í verkefnið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert