Verkefnið gríðarstórt og erfitt

Á bilinu 50 til 60 björgunarsveitarmenn Slysavarnafélagsins Landsbjargar munu á morgun taka þátt í að stífla rennslið í Bleiksárgljúfri og aðstoða við leit að Ástu Stefánsdóttur. Þetta er ein umfangsmesta aðgerð sem liðsmenn Landsbjargar hafa tekið þátt í.

Leitarmenn munu lýsa upp gilið og þá hafa þeir m.a. fengið neðansjávarmyndavélar sem verður slakað ofan í hylinn við leitina, en þær verða notaðar til að byrja með áður en ákvörðun verður tekin um að senda kafara niður. 

Svanur Sævar Lárusson er stjórnandi leitaraðgerðarinnar en hann er í svæðisstjórn á svæði 16. Hann segir í samtali við mbl.is að mikil undirbúningsvinna hafi átt sér stað undanfarna daga. 

Í gær og í dag vinna björgunarsveitarmenn að því að byggja betur undir stór rör sem búið er að koma fyrir ofan í gljúfrinu, en þeim er ætlað að soga upp vatn sem verður veitt fram fyrir fossinn og á annað stað í gljúfrinu. Um er að ræða þrjú 12 metra löng og 50 cm breið rör. Einnig er verið að útbúa öruggari leiðir inn í gilið, t.d. að leggja planka, enda svæðið drullugt og sleipt.

„Þetta snýr mest að auknu öryggi björgunarmannanna,“ segir Svanur varðandi undirbúninginn. Þá á veðrið ekki að trufla aðgerðina á morgun því spáð er hæglætisveðri á svæðinu. 

Markmiðið að losna við fossinn

Um klukkan átta í fyrramálið munu björgunarsveitarmenn hefjast handa við að koma dælubúnaði fyrir í gilinu, auk þess þurfi að koma fyrir rafstöðvum og öðrum rafmagnsbúnaði svo dælurnar fái straum. Til stendur að dæla vatni upp úr hylnum þar sem rörin liggja og fram fyrir fossinn. Ljóst er að það mun taka nokkrar klukkustundir.

„Markmiðið með þessu öllu er að reyna að losna við fossinn til að geta leitað þar undir,“ segir Svanur. Fallhæð fossins er um það bil 30 metrar. „Þetta er eini staðurinn sem okkur hefur ekki tekist að leita,“ bætir hann við

Spurður hvað björgunarsveitarmennirnir hafi langan tíma til að athafna sig í gilinu eftir að byrjað verður að stífla segir Svanur: „Við vitum ekki hvað hann er langur. Eina sem við vitum er að hann er stuttur.“

Spurður hvort hann þekki einhver fordæmi fyrir svo umfangsmikilli aðgerð segir Svanur: „Nei, ég held að menn séu búnir reyna að leita langt aftur og finna ekki neitt sambærilegt. Þetta er alveg gríðarlega stórt og erfitt verkefni og krefjandi.“

Erfitt en talið framkvæmanlegt

Auk björgunarsveitarmanna hafa verk- og tæknifræðingar komið að undirbúningi og kynnt sér aðstæður í gilinu. 

Aðgerðin við dælinguna er flókin og í raun er um að ræða tvær ólíkar aðferðir. Byrjað verður á því að nota dælubúnað sem er öruggari leið en að nota svokallaðan hívert-kraft. Taka skal fram að rennslið á ánni er um það bil þúsund lítrar á hverri sekúndu og að sögn Svans eru ekki til dælur sem þola slíkt rennsli. „Við stefnum á að vera með hátt í 20 dælur til að ná þessu sem gerir allt flóknara; meiri kaplar og meiri slöngur,“ segir hann. Öflugustu dælurnar sem Landsbjörg verður með á morgun taka tvö til þrjú hundruð sekúndulítra. 

„Þessi hívert [sog sem myndast með rörunum] sem við erum að tala um er talinn vera framkvæmanlegur. Ég veit ekki til þess að menn hafi reynt það með 50 cm röri áður. En hann er flókinn og í sjálfu sér hættulegri að öllu leyti því þá þurfum við að stífla meira en þá erum við smeykir um að hafa fólk undir fossinum ef stíflan brestur. Þess vegna ætlum við að byrja að sjá hvort við getum ekki dælt þessu og þá þurfum við ekki að stífla eins mikið. Þá eru meiri líkur á því að geta sent kafara þarna undir,“ segir Svanur.

Svanur er beðinn að útskýra hugtakið hívert betur. „Þetta er í raun það sama og þegar þú tekur bensín á brúsa [...] en í aðeins stærri útgáfu. Við erum með rörið 24 metra út í hyl og fram gilið og 12 metra niður. Svo er meiningin að setja lok á sitthvorn endann, svo er þetta fyllt af vatni og dælt inn í miðjuna á því. Svo eru tappanir teknir af í báða enda og þá á að myndast þetta sog; bara alveg eins og þegar þú setur slöngu ofan í brúsa og sýgur smá þá kemur það.“

Svanur segir að þetta sé tiltölulega þægileg leið til að soga vatn. „En þetta eru svo miklir kraftar. Það er það sem við erum hræddir við við hívertinn. Við getum engu rennsli stjórnað og það er ástæðan fyrir því að við ætlum að taka dælinguna fyrst,“ segir Svanur.

Fram hefur komið að aðgerðin er fyllilega afturkræf og verður skilið við svæðið eins og komið var að því. 

Ljóst er að aðgerðin mun standa yfir allan daginn á morgun. Skili hún ekki árangri verður leitinni haldið áfram á sunnudag.

Ásta Stefánsdóttir, sem leitað er að, dvaldi í sumarbústað um hvítasunnuhelgina ásamt unnustu sinni, Pino Becerra Bolanos. Þegar ekkert hafði spurst til þeirra 10. júní var hafin leit. Pino fannst látin um kvöldið í gljúfrinu. Í ljós kom að hún hafði látist af völdum áverka eftir hátt fall fram af um 30 metra háum fossi í gljúfrinu. Ekkert hefur hins vegar spurst til Ástu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert