30 sóttu um stöðu bæjarstjóra í Hafnarfirði

Hafnarfjörður.
Hafnarfjörður. mbl.is/Sigurður Bogi

Þrjátíu sóttu um stöðu bæjarstjóra í Hafnarfirði en umsóknarfrestur um stöðuna rann út þann 13.júlí síðastliðinn. Rósa Guðbjartsdóttir, formaður, bæjarráðs, segir spennandi tíma framundan í Hafnarfirði og að hún hlakki til að vinna með nýjum bæjarstjóra.

Þetta kemur fram á vefsvæði bæjarins. Þar segir að bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti á fundi sínum þann 18.júní að auglýsa stöðu bæjarstjóra lausa til umsóknar og fól bæjarráði ábyrgð á ráðningarferlinu. Skipuð var þriggja manna valnefnd sem fékk það hlutverk að greina starfið, skilreina hæfniskröfur, stýra matsferlinu og meta hæfi umsækjenda. Í valnefndinni eru Rósa Guðbjartsdóttir, Guðlaug Kristjánsdóttir og Gunnar Axel Axelsson.

Rósa Guðbjartsdóttir, formaður, bæjarráðs, segir spennandi tíma framundan í Hafnarfirði og að hún hlakki til að vinna með nýjum bæjarstjóra, en hver það verði komi vonandi í ljós mjög fljótlega. „Við byrjum viðtöl á næstu dögum, það eru margir hæfileikaríkir umsækjendur á listanum og vil ég þakka öllum sem sóttu um fyrir áhugann – við eigum skemmtilegt en krefjandi verkefni fyrir höndum að velja bæjarstjóra fyrir Hafnarfjörð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka