Börn sem ráða ekki við hundana sína skapa hættuástand

Lísa les Moggann - Púðlan Lísa Lotta var heldur betur …
Lísa les Moggann - Púðlan Lísa Lotta var heldur betur í hættu stödd þegar stærðarinnar Husky-tík slapp úr taumi. Eigandi Lísu gat sem betur fer gripið inn í aðstæður. Hallgerður Hauksdóttir

„Það liggur í augum uppi að lítil börn eiga ekki að vera með rándýr í taumi,“ segir Árni Stefán Árnason dýraréttarlögfræðingur, í samtali við mbl.is, en mikið hefur verið rætt um börn með hunda sem þau ráða ekki við á síðunni Hundasamfélagið á Facebook. „Þetta snýst ekki um börnin þetta snýst um umráðamann hundsins. Menn eiga ekki að skapa hættuástand að óþörfu.“

Tíkin reif sig lausa á tveimur sekúndum

„Aftur þurfti kærastinn minn að slíta tvo stóra hunda í sundur og stelpuskotturnar horfðu flissandi á, sem bendir frekar mikið til þess hvað þær náðu ekki að gera sér grein fyrir alvarleika málsins,“ segir Angie Pétursdóttir, hundaeigandi, á síðu Hundasamfélagsins í gær. Hún greinir frá því hvernig hún og kærasti hennar hafi í tvígang þurft að slíta ókunna, stóra og æsta hunda af sínum eigin vegna þess að þeir sem héldu í tauminn voru börn og réðu ekki við dýrin. Enginn slasaðist en Angie spyr sig hvort verr hefði getað farið.

Margir tóku undir áhyggjur Angie og höfðu frá svipuðu að segja, þar á meðal Hallgerður Hauksdóttir, formaður Dýraverndarsambands Íslands. „Husky-tíkin reif sig lausa af stelpunni á sirka tveimur sekúndum sléttum og stökk beint á Lísu, ekkert hik og alveg á hreinu hvað hún vildi. Sú hefði verið fjót að kála henni,“ segir hún frá göngutúr með púðluhundinum Lísu Lottu á Facebook, en Hallgerður þurfti að beita handalögmálum til að bjarga Lísu sinnu. „Börn eiga ekki að vera í þessum aðstæðum.“

Sökin er hjá foreldrunum

„Sá hinn fullorðni, sem ég geri ráð fyrir að eigi hundinn, er ábyrgur fyrir þessu og á ekki að láta lítið barn vera með hund, sem er rándýr í eðli sínu, í taumi,“ segir Árni Stefán. Ekki sé sérstaklega fjallað um börn með hunda í taumi í dýraverndarlögum enda sé augljóst hvar ábyrgðin liggi.

„Þetta væri bara skaðabótamál og hugsanlega hegningalagabrot. Sá sem yrði fyrir tjóni myndi væntanlega kæra umráðamann hundsins og þetta yrði lögreglumál.“ Eigi maður börn og hund beri maður ábyrgð á því að senda þau í göngutúr saman. „Þetta gæti jafnvel orðið það alvarlegt að lögreglu bæri að gefa út ákæru á eigenda hundsins, þrátt fyrir að hann væri foreldri barnsins, vegna þess að þarna er hann að setja þriðja mann í hættulegar aðstæður.“ Þriðji maður væri í þessu tilfelli barnið.

„Fullorðinn umráðamaður dýrs ætti aldrei að láta rándýr í hendur barns sem getur ekki stýrt aðstæðum, sama hversu gæfur hundurinn kann að vera.“

Rottweiler - Sama hversu gæfur hundurinn kann að vera á …
Rottweiler - Sama hversu gæfur hundurinn kann að vera á ekki að setja hann í hendur barns sem ræður ekki við aðstæður. Wikipedia
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka