Skipherrann sóttur á strandstað

Akrafell.
Akrafell. Ljósmynd/Jens G. Helgason

Landhelgisgæslan þurfti að fara heldur óhefðbundnar leiðir til að manna varðskipið Þór, sem kallað var á strandstað Akrafells í við Vattarnes á laugardaginn. Sækja þurfti stýrimann af Ægi með þyrlu, því enginn skipherra var laus til að stýra Þór, sem lá í Reykjavíkurhöfn.

„Ægir var á sjó, en rekstraráætlanir Landshelgisgæslunnar gera ráð fyrir að það sé bara eitt skip á sjó eins og ákveðið var í lok síðasta árs,“ segir Hrafnhildur Brynja Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar. „Svo kemur upp þetta mál og aðrir skipherrar Gæslunnar ekki á landinu.“

Hrafnhildur segir að þyrlur hafi verið að ferja kafara á strandstað til að taka þátt í aðferðum á strandstað. „Þá var ákveðið að það væri best í stöðunni að kippa yfirstýrimanninum á Ægi með til Reykjavíkur í þyrlunni, en hann starfar líka sem skipherra á Þór. Svo voru menn þarna fyrir austan sem tóku stöðu yfirstýrimanns á Ægi.“

Hún segir að Landhelgisgæslan sé bara með eina og hálfa áhöfn til að manna varðskipin. „Þegar eitthvað svona óvænt kemur upp þá verður að leysa það með þessum hætti. Það féll eiginlega allt upp í þessu púsluspili hjá okkur, og í sjálfu sér alveg ótrúlegt hvað allt gekk upp,“ segir Hrafnhildur.

Varðskip áður fleiri á sjó

Aðspurð segir Hrafnhildur að ekki væri verra ef Landhelgisgæslan hefðu úr meiri mannskap að ráða. „Þá væri auðveldara að ráða við þetta þegar hið óvænta gerist.“

Á heimasíðu Landhelgisgæslunnar má finna ítarlega samantekt á aðgerðunum á strandstað Akrafells, þar sem atburarásin er rakin. Í samantektinni segir meðal annars:

Að verkefninu komu tvö varðskip, flugvél, tvær þyrlur, kafarar, stjórnstöð, sjómælingar og aðgerðastjórn svo eitthvað sé nefnt, auk björgunarsveita á Austfjörðum, nærliggjandi skipa, hafnarstarfsmanna og fjölda annarra.

Í rekstraráætlun Landhelgisgæslunnar fyrir árið 2014 er meginmarkmið í skiparekstri að ávallt sé eitt skip til taks til að sinna leit, björgun, eftirliti og öryggisþjónustu á hafinu við Ísland.  Vegna samdráttar í rekstri undanfarin ár hefur úthaldsdögum varðskipa fækkað en leitast er við að tryggja að ávallt sé varðskip til taks. Fyrr á árum voru almennt tvö til þrjú varðskip til taks hverju sinni en vegna samdráttar hefur reynst nauðsynlegt að fækka verulega í áhöfnum.“

Varðskipið Þór.
Varðskipið Þór. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Varðskipið Ægir í Sauðárkrókshöfn.
Varðskipið Ægir í Sauðárkrókshöfn. mbl.is/Björn Jóhann
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka